Fjölsóttur Tæknidagur fyrir austan

Tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands síðastliðinn laugardag, en þetta var í tíunda sinn sem viðburðurinn fer fram.
Í frétt á vef Síldarvinnslunnar kemur fram að vel hafi tekist til. Boðið var upp á fjölmargar kynningar og uppákomur fyrir alla aldurshópa, þar sem fyrirtæki og stofnanir úr heimabyggð kynntu starfsemi sína. Þar á meðal tók Verkmenntaskólinn sjálfur virkan þátt og gaf gestum kost á að kynna sér námsleiðir, tækjabúnað og námsaðstöðu skólans.
Síldarvinnslan tók þátt í deginum og kynnti starfsemi sína. Þá bauð fyrirtækið gestum upp á girnilegar sjávarafurðir sem vöktu að sögn mikla lukku.
Tæknidagurinn hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem mikilvægur árlegur viðburður í samfélaginu, þar sem gestir fá innsýn í bæði menntun og atvinnulíf á Austurlandi. Auk þess er ávallt boðið upp á eitthvað nýtt og fróðlegt sem bæði gleður og kemur gestum á óvart.