Gagnrýnir kvótasetningu grásleppu og stofnmat Hafró

Deila:

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, gagnrýnir harðlega kvótasetningu grásleppu og aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar við stofnmat fisktegunda.

Í aðsendri grein á Vísi fer þingmaðurinn hörðum orðum um áhrif kvótakerfisins og fiskveiðiráðgjafar Hafró á fiskistofna. Hann bendir á að afli nær allra fisktegunda sem komið hafi undir kvótastýringu hafi dregist saman, og nefnir meðal annars loðnu, þorsk og grásleppu sem dæmi.

Sigurjón telur að veiðistjórnun grásleppu með kvótum, sem tekin var upp síðastliðið ár, byggi á veikum vísindalegum grunni og hafi nú þegar í för með sér verulega minnkun í afla. Hann bendir á að Hafró hafi metið stofn grásleppu sem lítinn, en veiðar síðustu vikna sýni hins vegar mikið framboð af fiski.

„Það er víðast landburður af grásleppu,“ segir hann og efast um áreiðanleika stofnmælinga sem byggja á togararalli við botn sjávar, þrátt fyrir að grásleppan haldi sig mest við yfirborð utan hrygningartíma.

Sigurjón gagnrýnir einnig að lítið sé tillit tekið til þátta eins og lífaldurs, vaxtar og samkeppni grásleppu við aðrar tegundir. Þá segir hann að dánartíðni hrygndrar grásleppu sé líklega vanmetin í ráðgjöfinni, en allt að 90 prósent hrygndra fiska geti drepist stuttu eftir hrygningu – óháð veiðum.

Hann telur að kvótasetning byggð á slíkum forsendum geti haft neikvæð áhrif á tekjur þjóðarinnar til framtíðar og nefnir að nú liggi fyrir Alþingi frumvarp sem kveður á um sveigjanlegri veiðistjórn sem byggi á traustari grunni.

Að lokum leggur Sigurjón áherslu á að tryggja þurfi breiðari aðkomu að veiðiráðgjöf, meðal annars með þátttöku skipstjóra, til að veita betri heildarsýn. „Hvernig má það vera að djúpkarfi veiðist mun betur í almennum veiðum sem meðafli en í stofnmælingum?“ spyr hann að lokum.

Deila: