„Leiðrétting fyrir almenning í landinu“

Deila:

Á Alþingi í dag spurði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, atvinnuvegaráðherra Hönnu Katrínu Friðriksson út í málsmeðferð við nýtt frumvarp um veiðigjöld. Guðrún gagnrýndi stjórnsýsluna harðlega og sagði að ráðherra og ríkisstjórnin hefðu hunsað skýr viðvaranaorð sérfræðinga og ýtt málinu í gegn án vandaðrar greiningar og raunverulegs samráðs.

„Það þarf mikinn ásetning til að hunsa slíka ráðgjöf,“ sagði Guðrún í ræðu sinni. Hún sagði minnisblöð sérfræðinga hafa bent á ótryggar forsendur og skort á gögnum, en samt sem áður hafi frumvarpið verið sett í samráðsgátt í aðeins sjö virka daga. Þá hafi mikilvægar upplýsingar ekki verið afhentar hagsmunaaðilum fyrr en eftir að umsagnarfrestur rann út, og fjölmiðlar aðeins fengið aðgang að minnisblöðum eftir ítrekaðar beiðnir og úrskurð kærunefndar.

Atvinnuvegaráðherra hafnaði ásökunum og sagði að minnisblöðin sem vísað væri til hefðu verið bráðabirgðamat, sett fram með fyrirvara. Hún lagði áherslu á að unnið hafi verið úr þeim athugasemdum sem þar komu fram og að samráð hafi átt sér stað.

„Ég hafna þeirri heimtufrekju sem kemur fram hjá hagsmunasamtökunum,“ sagði Hanna Katrín og benti á að frumvarpið væri „leiðrétting fyrir almenning í landinu“ þar sem jaðarverð fyrir nýtingu þjóðarauðlindar væri endurmetið á sanngjarnari hátt. Hún sagði einnig að ráðuneytið hefði fengið ráðgjöf frá erlendum sérfræðingum, m.a. frá Noregi, og að notast væri aðeins við þær fisktegundir þar sem virkur markaður væri til staðar.

Ráðherra sagði frumvarpið hafa verið rætt við upphaf þingmálaskrár, við framlagningu fjármálaáætlunar og á formlegum sem og óformlegum fundum með hagsmunaaðilum — sem í sumum tilfellum hafi þó ekki mætt á boðaða fundi.

Málið hefur vakið mikla athygli og klofning meðal þingmanna og hagsmunaaðila. Á meðan sumir telja breytingarnar löngu tímabærar og réttlætanlegar í þágu almennings, vara aðrir við að óvönduð stjórnsýsla og skortur á samráði geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútveg og byggðir landsins.

Deila: