„Í grunninn snýst þetta um réttláta skiptingu”

Deila:

Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM, fagnar frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um veiðigjöld og segir það löngu tímabært skref í átt að sanngjarnari skiptingu verðmæta úr sjávarútvegi.

Í pistli sem hann ritar bendir Guðmundur Helgi á að markmið frumvarpsins — að uppfæra viðmið um aflaverðmæti og tryggja þjóðinni sanngjarnt auðlindagjald — sé rétt og nauðsynlegt. Hann segir að árum saman hafi arðurinn af fiskveiðiauðlindinni runnið að mestu til útgerða, á meðan sjómenn og þjóðin hafi setið eftir.

„Þó öllum sé ljóst að gífurlegur hagnaður hefur skapast í sjávarútvegi, sérstaklega þar sem útgerðir ráða bæði veiðum og vinnslu, þá hefur reynst erfitt að fá stjórnvöld til raunverulegs samtals,“ segir Guðmundur Helgi.

Hann vísar til þess að íslenskir sjómenn fái um 40% lægra verð fyrir uppsjávarafla til bræðslu en kollegar þeirra í Noregi. Þegar norsk skip landa hér á landi fái þau jafnvel 43% hærra verð en þau íslensku, og sé það til marks um ósanngjarna verðmyndun.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að viðmið aflaverðmætis, m.a. fyrir makríl, síld og kolmuna, verði uppfærð í samræmi við opinber gögn frá Fiskistofu Noregs. Guðmundur Helgi telur það mikilvægt skref — að því gefnu að það sé unnið af heilindum og með gagnsæi. „Sú breyting getur, ef rétt er að staðið, komið til móts við þann veruleika sem sjómenn hafa bent á,“ segir hann.

Hann bendir einnig á skýrslu frá 2016 þar sem fram kom að innflutningsverð íslenskra sjávarafurða hafi verið um 8,3% hærra en skráð söluverð innanlands — mögulega vegna milliverðlagningar með aðkomu aflandsfélaga í eigu útgerða. Slíkt sé erfitt að rannsaka þar sem Verðlagsstofa skiptaverðs hafi ekki aðgang að öllum nauðsynlegum gögnum.

„Í óbreyttu ástandi tapa allir nema útgerðin,“ skrifar Guðmundur Helgi og nefnir m.a. að sjómenn verði hlunnfarnir, hafnir og sveitarfélög verði af tekjum og ríkissjóður af milljörðum.

Að lokum leggur hann áherslu á að gagnsæi og samráð þurfi að vera grundvöllur framtíðarlausna. „Það er lykilatriði að stjórnvöld, fulltrúar útgerða og fulltrúar sjómanna komi saman og sammælist um staðreyndir málsins. Allar upplýsingar þurfa að liggja á borðinu. Annars verður áfram vantraust og tortryggni.“

„Þetta snýst um réttlæti – að sjómenn fái sanngjarna hlutdeild í verðmætum sem þeir skapa, og þjóðin réttlátt auðlindagjald,“ segir Guðmundur Helgi að lokum.

Deila: