Góð kolmunaveiði við Færeyjar

Kolmunnaveiði suður af Færeyjum hefur gengið afar vel að undanförnu. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar. Börkur NK kom til Neskaupstaðar 8. apríl með fullfermi, 3.250 tonn, og síðan hefur hver farmurinn af öðrum borist til verksmiðjanna í Neskaupstað og á Seyðisfirði.
Færeyska skipið Fagraberg landaði 2.700 tonnum á Seyðisfirði þann 10. apríl, og sama dag landaði Barði NK 2.100 tonnum í Neskaupstað. Vilhelm Þorsteinsson EA kom síðan með 3.150 tonn til Neskaupstaðar síðastliðið laugardagskvöld.
Veiðin heldur áfram af krafti. Börkur NK er væntanlegur til Seyðisfjarðar í dag með enn einn fullfermi, og Barði NK er á leið til Neskaupstaðar með álíka farm.
Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar, skipstjóra á Berki, gengur veiðin mjög vel: „Við fylltum skipið í sex holum, á um tveimur og hálfum sólarhring. Holin voru á bilinu 400 til 640 tonn hvert. Veitt var á gráa svæðinu syðst í færeysku lögsögunni.“
Verksmiðjustjórarnir Hafþór Eiríksson í Neskaupstað og Eggert Ólafur Einarsson á Seyðisfirði eru mjög ánægðir með hráefnið, sem þeir segja bæði ferskt og af góðum gæðum.