Hitastig hafsins tengist erfðamynstri rækju

Nýleg rannsókn hefur leitt í ljós erfðafræðilega aðgreiningu milli stofna innfjarðarækju (algengar á grunnslóð) og úthafsrækju (stóri kampalampi, Pandalus borealis) við norðanvert Ísland. Þetta kemur fram á vef Hafró. Notast var við raðgreiningu skerðibútagagna úr erfðamengi rækju sem safnað var á svæði sem spannar allt frá Arnarfirði til Kolbeinseyjar, þar á meðal úr Skjálfanda.
Niðurstöðurnar sýna að lítill sem enginn erfðafræðilegur munur greindist innan stofna innfjarðarækju. Hins vegar kom fram skýr aðgreining milli innfjarðar- og úthafsrækju, þar sem erfðafræðilegur breytileiki minnkaði eftir því sem fjær dró landi. Athyglisvert er að þó nokkuð af innfjarðarækju fannst einnig fyrir utan Skjálfanda.
Fram til þessa hefur lítill erfðafræðilegur fjölbreytileiki greinst hjá stóra kampalampa, þrátt fyrir víðtæka dreifingu stofnsins á norðlægum slóðum. Í þessari rannsókn kom hins vegar í ljós sterkt samband milli botnsjávarhita og erfðasamsetningar sýna frá Skjálfanda og út að Kolbeinsey, sem gefur tilefni til frekari rannsókna.
Þessi nýgreindi erfðafræðilegi breytileiki gæti reynst mikilvægur fyrir aðlögun stofnsins að loftslagsbreytingum, sérstaklega ef hækkandi sjávarhiti veldur auknum valþrýstingi á stofninn til lengri tíma litið.