Nýtt app einfaldar aflaskráningu

RSF appið er nýjung frá Reiknistofu fiskmarkaða hf. sem gerir sjómönnum kleift að skrá afla beint í appi og senda tilkynningar til Fiskistofu og fiskmarkaða með einföldum hætti. Appið, sem er þróað í tengslum við uppboðsvefinn RSF.is, kemur í stað símtala og sms-samskipta sem hingað til hafa verið notuð við aflaskráningu.
„Appið einfaldar ferlana til muna og er mikilvægur liður í áframhaldandi þróun hugbúnaðarlausna fyrir sjávarútveginn,“ segir Magnús Stefánsson, verkefnastjóri hjá RSF í tilkynningu frá RSF.
Appið er ætlað seljendum, þ.e. sjómönnum og bátaeigendum, og næstu skref í þróuninni fela í sér betri aðgang að upplýsingum seljenda beint í appinu. Notendur sem þegar eru skráðir á RSF.is geta virkjað appið með rafrænum skilríkjum. Appið er fáanlegt á App Store og Google Play, og nánari leiðbeiningar má finna á heimasíðu RSF.