Enn samdráttur í ráðgjöf í þorski

Hafrannsóknastofnun hefur lagt fram ráðgjöf um aflamark helstu nytjastofna fyrir fiskveiðiárið 2025/2026. Stofnunin ráðleggur að aflamark þorsks verði lækkað um 4%, sem þýðir að ráðlagður heildarafli verður 203.822 tonn samanborið við 213.214 tonn á núverandi fiskveiðiári. Ástæða lækkunarinnar er samdráttur í stærð viðmiðunarstofnsins, einkum vegna lítilla og hægvaxta árganga frá árunum 2019 til 2022, sem tengist meðal annars slöku ástandi loðnustofnsins.
Upphafsaflamark loðnu fyrir næstu vertíð er sett á 46.384 tonn en sú ráðgjöf verður endurskoðuð eftir haustmælingar.
Ráðgjöf fyrir ýsu hækkar um 3%, eða í 78.918 tonn, vegna mikillar stærðar viðmiðunarstofnsins og góðrar nýliðunar frá árgangunum 2019 til 2021. Hins vegar er búist við minni nýliðun eftir það tímabil.
Ufsaráðgjöf lækkar um 11%, niður í 59.510 tonn, og gullkarfi lækkar einnig um 12%, niður í 41.911 tonn vegna langvarandi slakrar nýliðunar. Ráðgjöf um djúpkarfa er áfram 0 tonn vegna þess að hrygningarstofninn er enn undir varúðarmörkum.
Grálúða hækkar um 17%, upp í 20.992 tonn, þar sem heildarstofnstærðin hefur aukist og nýliðun er góð. Aflamark íslensku sumargotssíldarinnar hækkar einnig um 27%, upp í 103.367 tonn, vegna sterkrar stöðu stórra árganga frá 2017 til 2019, en þó er umtalsverð óvissa í stofnmati síldarinnar.
Í tengslum við ráðgjöfina er bent á mikilvægi þess að fylgjast með meðafla sjávarspendýra og sjófugla, sérstaklega hjá tegundum með lítil eða minnkandi stofnstærð, eins og landseli, teistu og himbrima, þar sem áfram mælist töluverður meðafli.