Kaldvík lýkur 40 milljarða fjármögnun

Laxeldisfélagið Kaldvík AS hefur lokið við umfangsmikla endurfjármögnun að fjárhæð 40 milljarða króna, sem felur í sér nýja lánsfjármögnun og hlutafjáraukningu. Markmið endurfjármögnunarinnar er að styrkja fjárhagsstöðu félagsins og styðja við áframhaldandi vöxt og fjárfestingar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef félagsins.
Í lok maí náði Kaldvík samkomulagi við lánveitendur um 33 milljarða króna sambankalán til fjögurra ára. Lánveitendur eru DNB, Nordea, Arion banki og Landsbankinn. Samhliða þessu tryggði félagið sér 6,6 milljarða króna í hlutafjáraukningu með stuðningi meirihlutaeiganda síns, Austur Holding AS.
Rekstrarniðurstaða fyrsta ársfjórðungs 2025 var umfram væntingar félagsins. Rekstrartekjur námu 48,4 milljónum evra, sem er 56% aukning frá sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður (EBIT) þrefaldaðist í ársfjórðungnum samanborið við fyrsta ársfjórðung síðasta árs og nam 9,8 milljónum evra, samanborið við 2,4 milljónir evra árið áður. Rekstrarhagnaður á hvert kíló (EBIT/KG) nam 1,54 evrum og meðalverð var 7,44 evrur á kíló. Uppskera á tímabilinu nam 6.383 tonnum, sem er ríflega 60% aukning frá 3.986 tonnum á fyrsta ársfjórðungi 2024.
Félagið áætlar að framleiðsla 2025 nemi um 21.500 tonn og stefnir að því að sleppa 7,5 milljónum seiða á árinu 2025 til að stuðla að áframhaldandi vexti. Í lok fyrsta ársfjórðungs lauk Kaldvík við kaup á kassaverksmiðju og eignaðist að fullu sláturstöðina Búlandstind. Félagið bíður nú eftir afgreiðslu rekstrarleyfis fyrir nýtt eldissvæði í Seyðisfirði. Kaldvík hefur nú leyfi til framleiðslu á samtals 43.800 tonnum.