Bátur fórst við Patró – einum náð úr sjónum

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir á Vestfjörðum voru kallaðar út á tólfta tímanum í dag eftir að strandveiðibátur sökk úti fyrir Patreksfirði. Einn maður var um borð í bátnum þegar hann fór niður. Vísir greinir frá þessu.
Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni barst stjórnstöðinni neyðarkall frá skipstjóra fiskibáts í grenndinni sem hafði orðið var við slysið og greindi frá því að báturinn væri sokkinn og að maður væri í sjónum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarskipið Vörður voru þegar kölluð út með hæsta forgangi. Öllum skipum á svæðinu var jafnframt gert viðvart og beðið að halda á vettvang.
Áhöfnin á Verði var fyrst til að ná til mannsins og tókst að bjarga honum upp úr sjónum. Hann var fluttur með skipinu til Patreksfjarðar. Ekki hefur fengist staðfesting á líðan hans að svo stöddu.
Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum og Rannsóknarnefnd samgönguslysa.