Ráðherra: Þingmálin bíða í bunkum

„Við í ríkisstjórninni munum halda áfram að vinna að þeirri skýru sýn sem við fórum af stað með í upphafi stjórnarsamstarfs Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins. Þar hafa líka þingmenn meirihlutans staðið sig með eindæmum vel; í nefndum þingsins, í þingsal, og í almennri umræðu. Ég er stolt af því að tilheyra þessum flotta hópi,“ skrifar Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra á Facebook.
Hún segir að lífið gangi sinn vanagang í ráðuneytinu þrátt fyrir að málþóf minnihlutans á Alþingi hamli eðlilegum þingstörfum.
„Þrátt fyrir að leiðréttingin á veiðigjöldum sem sjávarútvegurinn greiðir hafi fengið mesta umfjöllun (hæ málþóf) þá á ég önnur stór mál sem bíða í bunkanum sem minnihlutinn er að reyna að stoppa. Þar á meðal:
– Frumvarp sem tengist aðgerðum til að útrýma riðuveiki í sauðfé.
– Airbnb frumvarp sem snýst um að auka framboð íbúðarhúsnæðis innan þéttbýlis með því að draga úr skammtímaleigu sem stunduð er án skráningar og tilskilinna leyfa.
– Frumvarp sem tengist 48 daga strandveiðum.
– Frumvarp um breytingu á búvöru sem tryggir að samkeppnislög nái að halda utan um hagsmuni neytenda og bænda.
Í ráðuneytinu er ég svo ásamt mínu fólki að vinna í þingmálalista næsta vetrar en þar er margt undir í stóru ráðuneyti.
Við í ríkisstjórninni munum halda áfram að vinna að þeirri skýru sýn sem við fórum af stað með í upphafi stjórnarsamstarfs Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins. Þar hafa líka þingmenn meirihlutans staðið sig með eindæmum vel; í nefndum þingsins, í þingsal, og í almennri umræðu. Ég er stolt af því að tilheyra þessum flotta hópi.
Hvað okkur í Viðreisn varðar finnum við fyrir miklum áframhaldandi stuðningi við verk okkar. Við munum halda áfram að vinna að almannahagsmunum en það er einmitt leiðarstefið sem ríkisstjórnin starfar eftir.“