Fiskurinn stærri og betri úr íslenskri lögsögu

Deila:

Fiskiðuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur nú tekið á móti rúmlega 4.000 tonnum af makríl frá því að vertíð hófst í júní. Í fyrstu kom aflinn úr Smugunni, en síðustu daga hefur veiðin farið fram innan íslenskrar lögsögu. Frá þessu segir á vef Síldarvinnslunnar.

Börkur NK kom með fyrsta makrílinn úr íslensku lögsögunni til löndunar 1. júlí og í gær kom Barði NK með tæplega 700 tonn. „Vinnslan gengur vel og hefur gengið vel frá upphafi,“ segir Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuversins. Hann segir makrílinn úr íslenskri lögsögu vera stærri og betri en Smugumakrílinn – meðalþyngdin hafi farið úr 450 grömmum upp í 560 grömm. Inn á milli hafa komið einstaklega stórir fiskar, þar á meðal eitt 1.140 gramma glæsieintak úr afla Barkar.

Makríllinn er unninn með þrennum hætti – heilfrystur, hausaður og flakaður – mest fer í heilfrystingu. Geir Sigurpáll segir vertíðina hafa gengið vel til þessa og vonar að svo haldi áfram.

Deila: