Mikil sala í nýju R1 vindunni frá DNG

Deila:

„Það segir sína sögu um hvernig R1 vindunni er tekið á markaðnum að við stefnum hraðbyri í að tvöfalda sölu á færavindum í ár miðað við síðasta ár. Við höfum undan í framleiðslu sem stendur en allar nýjar vindur fara jafn harðan út úr húsi til kaupenda bæði hérlendis og erlendis. Hvað þetta varðar má segja að viðtökur á markaði hafi verið umfram okkar björtustu vonir og vitanlega er það mjög ánægjulegt fyrir okkur,“ segir Daði Tryggvason sem tók snemma sumars við stöðu verkefnastjóra DNG Færavinda hjá Slippnum Akureyri ehf.

Nýjasta gerð af hinum gamalreyndu DNG færavindum heitir R1 og kom hún af fullum þunga í sölu síðasta vetur eftir að hafa verið í þróun um skeið. Daði segir að mikil og góð reynsla hafi fengist á vindurnar á handfæraveiðum í sumar og að kaupendur séu hæstánægðir. Marktæk aflaaukning með R1 Spurður hvaða atriði í nýju R1 vindunni fái lof frá handfærasjómönnum segir hann að heilt yfir séu allir sammála um að vindan fiski betur en fyrri gerð.

„Það er meiri mýkt í drættinum, þar af leiðandi rifnar síður út úr fiskinum og fleiri fiskar skila sér um borð. Okkar besta kynning á vindunni er sá árangur sem notendurnir tala um og menn sjá einfaldlega mikið tækifæri í að skipta yfir í þessa nýju gerð þegar um er að ræða vindu sem menn eru sammála um að fiskar betur. Það vilja allir ná meiri árangri í veiðum,“ segir Daði en R1 vindan verður kynnt á sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll. Þar gefst smábátasjómönnum kjörið tækifæri til að kynna sér hana, sýningartilboð fyrirtækisins og ræða við Daða og aðra starfsmenn DNG Færavinda hjá Slippnum Akureyri.

Nánar er rætt við Daða í nýju tölublaði Sóknarfæris.

Deila: