Hvetja ráðherra til að gefa strax út reglugerð

Deila:

Landsamband smábátaeigenda hefur sent Eyjólfi Ármannssyni innviðaráðherra bréf þar sem farið er fram á að hann gefi þegar út reglugerð um línuívilnun og að hún gildi frá upphafi yfirstandandi fiskveiðiárs.

Í bréfi LS segir að tafir á útgáfu reglugerðarinnar hafi valdið verulegum vandræðum hjá útgerðum sem byggja rekstur sinn á línuveiðum. Þar kemur fram að útgerðir hafi skipulagt starfsemi sína út frá því að línuívilnun kæmi til framkvæmda 1. september líkt og verið hefur í rúma tvo áratugi.

„Allt skipulag; boðun starfsfólks til vinnu, innkaup á beitu, línu, önglum og þess sem til þarf tók mið af línuívilnun kæmi til framkvæmda 1. september sl. eins og undanfarna rúma tvo áratugi,“ segir í bréfi LS. „Það eru því gríðarleg vonbrigði að enn hafi ekki verið gefin út reglugerð um heimildir til línuívilnunar í einni einustu þeirra sex tegunda sem hún tekur til.“

Samtökin segja að einn mánaðar biðtími hafi þegar vakið upp spurningar um rekstraröryggi hjá mörgum útgerðum og að slíkt ástand sé óásættanlegt.

Í bréfinu er jafnframt bent á að margir smábátar hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að fjárfesta í beitningavélum, enda sé hagkvæmni þess ekki fyrir hendi vegna skorts á aflaheimildum. Þeir sem ekki ráða yfir nægum heimildum treysti á ívilnunarkerfið til að halda úti beittri línuveiði og tryggja þannig atvinnu fólks við beitningu.

LS varar við því að verði línuívilnun aflögð muni það leiða til forsendubrests í rekstri fjölda báta, aukinnar samþjöppunar aflaheimilda og þess að smærri bátar verði verkefnalausir.

„Það er því nauðsynlegt að tryggja aflaheimildir til línuívilnunar allt árið,“ segir að lokum í bréfi LS til ráðherra.

Deila: