Veiddu fiskikör úr sjó

Deila:

Þegar ísfisktogarinn Gullver NS var á leið á miðin frá Seyðisfirði í lok septembermánaðar urðu skipverjar varir við þrjú fiskikör á floti norðaustur af Dalatanga. Ákveðið var að draga þau um borð og nýta verkefnið sem björgunaræfingu, þar sem aðstæður við slíka aðgerð eru sambærilegar þeim sem skapast þegar manni er bjargað úr sjó. Frá þessu segir á vef síldarvinnslunnar.

Körin voru tekin að hlið skipsins og netakúla notuð til að halda þeim við síðuna. Að lokum var húkkað í hífingarauga til að hífa þau um borð. Ekki þótti fært að setja út léttbát vegna sjólags, þannig að samskipti áhafnar og skipstjóra skiptu lykilmáli við framkvæmdina.

Aðgerðin tók 45 mínútur og gekk afar vel – síðasta karið hafði þá rekið um 0,4 sjómílur, sem undirstrikar mikilvægi þess að slíkar aðgerðir séu framkvæmdar hratt og markvisst.

Að sögn áhafnar var æfingin gagnleg og vel heppnuð, allir þekktu hlutverk sitt og samskipti gengu snurðulaust fyrir sig.

Deila: