Grásleppan aftur á dagskrá

Deila:

Frumvarp um að taka grásleppuna aftur úr kvóta hefur verið lagt fram á Alþingi að nýju. Frumvarpið var áður lagt fram á síðasta þingi en náði þá ekki fram að ganga. Bæjarins besta greinir frá þessu.

Í nýrri útgáfu frumvarpsins hafa verið gerðar tvær breytingar. Annars vegar eru sett stærðarmörk við 15 brúttótonn þannig að stærri bátar fái ekki grásleppuleyfi byggt á eldri heimildum. Hins vegar er gildistökuákvæði breytt þannig að lögin taki gildi þegar í stað ef frumvarpið verður samþykkt.

Í greinargerð með frumvarpinu segir meðal annars:

„Markmið frumvarps þessa er að færa stjórn veiða á grásleppu í fyrra horf með vísan til þess að sú breyting sem gerð var með lögum nr. 102/2024 þjónar hvorki hagsmunum atvinnugreinarinnar né nytjastofnsins og þar með ekki hagsmunum almennings. Með frumvarpinu eru því lagðar til annars vegar breytingar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og hins vegar lögum um stjórn fiskveiða þess efnis að þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 102/2024 gangi til baka.“

Flutningsmenn frumvarpsins eru fimm nefndarmenn úr stjórnarflokkunum í atvinnuveganefnd, og er Lilja Rafney Magnúsdóttir (F) fyrsti flutningsmaður.

Fram kemur að Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, sé ekki meðal flutningsmanna málsins.

Deila: