Framleiðslumet í Silfurstjörnunni

Framleiðsla og Íslandsmet eru slegin daglega í Silfurstjörnunni í Öxarfirði, að því er fram kemur í frétt á vef Samherja. Þar segir að liðlega tvö þúsund tonn af laxi hafi þegar verið unnin á þessu ári í landeldisstöð Samherja fiskeldis ehf., sem er þegar meira en unnið var allt árið 2023 þegar framleiðslan var tæplega 1.800 tonn. Það þýðir að nýtt Íslandsmet verður slegið á degi hverjum fram til áramóta í Öxarfirði.
Í fréttinni segir að allar aðstæður til landeldis og framleiðslu á hágæðaafurðum séu ákjósanlegar í Öxarfirði þar sem Silfurstjarnan nýtir græna orku, jarðvarma og kristaltært borholuvatn til framleiðslunnar. Starfsfólk Samherja fiskeldis hafi áratuga reynslu í greininni og fyrirtækið hafi komið að landeldi á laxi í rúm tuttugu ár.
Silfurstjarnan hefur gengist undir miklar endurbætur á undanförnum árum og var því fagnað í síðasta mánuði að framkvæmdum væri lokið. Framleiðslugeta stöðvarinnar er nú um 3.000 tonn á ári en var áður um 1.800 tonn. Samkvæmt fréttinni hafa 97,3 prósent framleiðslunnar á árinu fallið í hæsta gæðaflokk og meðalþyngd laxins er 5,26 kíló.
„Það er alltaf gaman þegar met eru slegin, ég tala nú ekki um að gera slíkt allar vikur fram að áramótum,“ segir Elvar Steinn Traustason, rekstrarstjóri Silfurstjörnunnar, í samtali við vef Samherja. Hann segir að starfsfólkið, sem sé um 40 talsins, hafi unnið frábært starf og að endurbæturnar hafi tekist mjög vel. Olga Gísladóttir vinnslustjóri bætir við að starfsmenn hafi þegar náð góðum tökum á nýjum og endurbættum búnaði og að ánægjulegt sé að sjá flutningabíla fara reglulega frá stöðinni fullhlaðna með gæðaafurðir. Hún segir að Öxarfjörðurinn sé orðið öflugt matvælahérað og að starfsfólkið hafi fagnað því með tertu þegar 2.000 tonna múrinn var rofinn.