Gervigreindardróni sem öryggis- og eftirlitstæki

Í nýjasta tölublaði Sóknarfæris er fjallað um nýjustu gerð DJI Dock dróna sem nýtir gervigreindartækni við sjálfvirkt eftirlit. Þar kemur fram að dróninn geti verið rúmlega fimmtíu mínútur samfellt á flugi við bestu aðstæður og flogið allt að tólf kílómetra út frá heimahöfninni áður en hann snýr aftur til hleðslu. Greinin lýsir tækninni sem fjölhæfri lausn með mikla möguleika.
„Möguleikarnir eru í reynd óþrjótandi í notkun svona dróna og þessu til viðbótar er svo fáanlegur fjölbreyttur aukabúnaður við drónann svo sem ljóskastari, hátalari og radar ef flogið er í umhverfi þar sem er mikið af varasömum hindrunum. Þá notar dróninn radarinn til að fara framhjá þeim. Það er hægt að senda hann í loftið á 10 sekúndum og flughraðinn getur verið 80 kílómetrar á klukkustund þannig að sem öryggis- og eftirlitstæki er þetta mjög góður valkostur,“ segir Sigurður Þór Helgason í viðtali við blaðið.
Í greininni kemur einnig fram að tæknin sé fáanleg í tveimur útgáfum, með hefðbundinni myndavél eða með hitamyndavél sem hefur innbyggt innrautt ljós til að auðvelda nætursýn. Þar segir að dróninn geti með sjálfvirkum hætti metið ef eitthvað óeðlilegt ber fyrir linsu myndavélarinnar.
