„Það þarf að hafa fyrir ýsunni um þessar mundir“

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi að lokinni 24 daga veiðiferð. Aflinn í túrnum var 461 tonn, þar af 220 tonn af ýsu og 100 tonn af þorski. Aflaverðmæti var 350 milljónir króna. Skipstjóri fyrri hluta túrsins var Bjarni Ólafur Hjálmarsson en Sigurður Hörður Kristjánsson tók við skipstjórn síðari hlutann.
Bjarni Ólafur sagði í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar að túrinn hefði hafist á Vestfjarðamiðum. „Við byrjuðum fyrir vestan en vorum þar einungis fyrstu dagana. Síðan færðum við okkur austur fyrir land og vorum þar. Þetta var kropp allan tímann og lögð áhersla á ýsuveiði. Það þarf að hafa fyrir ýsunni um þessar mundir,“ sagði Bjarni Ólafur.
Sigurður Hörður segir í fréttinni að eftir að hann kom um borð hefði verið haldið áfram á Austfjarðamiðum. „Við vorum fyrir austan allan tímann, frá Digranesflaki að Stokksnesgrunni. Áfram var haldið að reyna við ýsu og þetta var svona nudd. Það er staðreynd að ýsan er mun erfiðari en verið hefur. Mest af tímanum var einstök veðurblíða eins og Austfirðingar kannast við. Í sannleika sagt var veðrið hreint ótrúlegt.“
