Síldarvinnslutogararnir landa fyrir árshátíð

Deila:

Ísfisktogararnir í eigu Síldarvinnslunnar hafa landað í vikunni en fram kemur á vef fyrirtækisins að starfsfólk sé á leið til Póllands í árshátíðarferð. Jóhanna Gísladóttir GK landaði á Grundarfirði á sunnudag með um 60 tonn af afla, mest þorsk sem fékkst á Strandagrunni. Samkvæmt skipstjóranum Smára Rúnari Hjálmtýssyni gekk erfiðlega að blanda aflann en eftir löndun hélt skipið til veiða á ný og landaði í gær fullfermi af karfa, úr Víkurálnum, í Hafnarfirði.

Vestmannaey VE landaði fullfermi í fyrradag, mest ýsu sem fékkst víða, þar á meðal í Skeiðarárdýpi, Breiðamerkurdýpi og við Pétursey.

Skipstjórinn Birgir Þór Sverrisson segir í frétt á vefnum að veiðin hafi verið þolinmæðisverk en gengið vel.

Gullver NS landaði á Seyðisfirði með 90 tonn, mest þorsk og ýsu, eftir veiðar frá Tangaflaki og suður á Skrúðsgrunn, en skipstjórinn Þórhallur Jónsson sagði ýsuveiðina hafa verið erfiða.

Bergey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gær, til helminga þorsk og ýsu. Að sögn skipstjórans Jóns Valgeirssonar var ýsuveiðin treg. „Það er hundleiðinlegt að eltast við ýsuna um þessar mundir, en það lagast einhvern tímann eins og flest annað,“ sagði Jón.

Deila: