VSV: Úrgangi breytt í verðmæti

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hefur tekið í notkun nýja HDF-hreinsistöð sem bætir nýtingu hráefna og dregur úr umhverfisáhrifum starfseminnar. Kerfið er afrakstur samstarfs Vinnslustöðvarinnar, íslenska fyrirtækisins Iðnver og þýska tæknifyrirtækisins Huber Technology. Með nýju hreinsikerfi er hægt að endurheimta fitu og prótein úr fráveitu sem áður fóru til spillis og nýta þau aftur í framleiðslu.
Að sögn Péturs Blöndal, eiganda Iðnver, er búnaðurinn háþróuð flotunartækni sem aðskilur föst efni, fitu og prótein úr fráveitunni áður en hún er leidd til sjávar. Hann segir að kerfið hafi verið hannað sérstaklega fyrir Vinnslustöðina og að það sé búið tveimur tromlusíum sem fjarlægja gróf föst efni áður en flotun fer fram, sem tryggi stöðugan og skilvirkan rekstur.
Willum Andersen, tæknilegur rekstrarstjóri Vinnslustöðvarinnar, segir að hvatinn að verkefninu hafi verið bæði hagnýtur og brýnn þar sem gamla hreinsistöðin hafi verið úr sér gengin og ekki lengur ráðið við þörfina. Með nýja kerfinu sé hægt að nýta prótein og fitu aftur í vinnslunni og fá þannig bæði mjöl og lýsi úr efni sem áður fór til spillis.
Willum segir að verkefnið falli vel að sjálfbærnistefnu fyrirtækisins. Nýja hreinsistöðin geri það að verkum að ekkert hráefni fari lengur til spillis og affall frá vinnslunni sé allt unnið. Hann segir að þetta sé stórt skref í átt að grænni framtíð og að samstarfið við Iðnver og Huber hafi gengið afar vel.

