Þrítugasta haustrallinu lokið

Þrítugustu stofnmælingu botnfiska að haustlagi lauk 17. október síðastliðinn. Í verkefninu, sem einnig er nefnt haustrall eða SMH, tóku þátt togararnir Breki VE og Þórunn Sveinsdóttir VE auk rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar HF. Samtals komu um 80 starfsmenn að mælingunni og voru skipstjórar þeir Heimir Hafsteinsson á Árna Friðrikssyni, Sigurjón Viðarsson og Óskar Þór Kristjánsson á Þórunni Sveinsdóttur og Magnús Ríkarðsson á Breka. Togað var á 372 stöðvum umhverfis landið, allt niður á 1300 metra dýpi við landgrunnsbrúnina.
Haustrallið hefur verið framkvæmt árlega frá 1996 og er eitt af mikilvægustu verkefnum Hafrannsóknastofnunar til að meta stofnstærð botnlægra nytjastofna, einkum grálúðu og djúpkarfa. Þar eru einnig skráðar upplýsingar um útbreiðslu og líffræði helstu fisktegunda ásamt umhverfisþáttum á borð við sjávarhita og veðurfar. Þá hefur verið safnað botndýrum og frá 2017 hefur rusl og plastrusl í afla verið skráð kerfisbundið.
Gagnasöfnun í haustralli er nú orðin veigamikill hluti af langtímavöktun lífríkis á íslenskum hafsvæðum, og hefur hún verið grundvöllur fjölmargra skýrslna, vísindagreina og námsverkefna. Helstu niðurstaðna úr haustralli 2025 er að vænta í desember.
Myndin er af vef Hafró.
