Taka á móti um 30.000 tonnum af fiski á ári

Deila:

Hafnir Snæfellsbæjar taka á móti um 30.000 tonnum af fiski á ári. Þar er öll aðstaða afar góð og er meðal annars umfangsmiklum framkvæmdum við höfnina á Rifi að ljúka. Öflug fyrirtæki í veiðum og vinnslu  eru í sveitarfélaginu og aflaheimildir miklar. Hafnarstjóri í Snæfellsbæ er Björn Arnaldsson.

„Undir hafnir Snæfellsbæjar heyra hafnirnar á Rifi, Ólafsvík og Arnarstapa. Við eigum líka eina litla bryggju á Hellnum og aðra á Búðum. Þær síðast nefndu flokkast reyndar ekki sem hafnir, heldur heita lendingar í kerfinu. Þangað kemur nánast aldrei neinn sjóleiðina. En það er mikið um ferðamenn á báðum stöðunum ofan af landi. Þessar þrjá fyrrnefndu hafnir eru dæmigerðar fiskihafnir. Arnarstapi er fyrst og fremst fyrir smærri bátana og þeir stærstu sem þar eru að fara inn eru þessir 30 tonna bátar í litla kerfinu. Hún er það þröng höfnin á Stapa að það er ekki pláss fyrir stærri báta. Þeir landa svo á Rifi og í Ólafsvík,“ segir Björn.

Björn Arnaldsson, hafnarstjóri Snæfellsbæjar, segir miklu máli skipta að hafnarbótasjóður leggi fé til uppbyggingar og viðhalds hafna landsins.

Björn Arnaldsson, hafnarstjóri Snæfellsbæjar, segir miklu máli skipta að hafnarbótasjóður leggi fé til uppbyggingar og viðhalds hafna landsins.

Mestu landað á Rifi

Hafnirnar eru allar opnar allt árið, líka Arnastapi. Þaðan er róið allt árið, mest strandveiðar á sumrin og þegar hann liggur í norðanáttum á veturna halda minni bátarnir sig í skjólinu sunnan við Nesið og róa frá Stapa. Mest hefur verið landað rúmum 3.000 tonnum á einu ári á Stapa. Fyrstu 8 mánuðina á þessu ári er búið að landa um 1.400 tonnum þar.

„Landanir hjá okkur eru í kringum 30.000 tonn á ári, hefur farið upp í 32.000 og niður í 27.000. Mestu er landað á Rifi, um 15.000 til 16.000 tonnum og Ólafsvík er með um 12.000. Svo hafa komið ævintýraár eins og þegar makríllinn óð hér um allt. Þá tókum við á móti um 4.000 tonnum af makríl af handfærabátum. Núna eru komin á land í kringum 1.000 tonn af makríl. Það hefur dregið úr þessum veiðum frá því sem var fyrir þremur árum. Þá voru allar trillur komnar með makrílrúllur.

Í strandveiðinni erum við með um 8% af heildaraflanum í okkar þremur höfnum. Við höfum farið upp í 10% og niður í 7,5%. Á þessu svæði sem nær frá Arnarstapa og norður að Súðavík eru flestir bátar og mestur afli, langleiðina í helmingur heildarinnar nú í sumar. Mesta skakfiskiríið hér er alltaf á fyrri hluta tímabilsins, í maí og júní, en svo er lengra að sækja í júlí og ágúst.

Landað úr línubátnum Tjaldi á Rifi. Hann er gerður út af KG fiskverkun.

Landað úr línubátnum Tjaldi á Rifi. Hann er gerður út af KG fiskverkun.

Mest dæmigerðir vertíðarbátar

Hér í Snæfellsbæ eru þetta annars mest dæmigerðir vertíðarbátar, en það eru ekki margar hafnir sem búa við þær aðstæður. Þó má benda á Grindavík sem slíka höfn. Hérna í Ólafsvík eru langflestir bátarnir á snurvoð en nokkrir á þorskanetum. Svo eru gerðir héðan út smábátar á línu allt árið. Á Rifi eru dragnótarbátar og síðan þrír stórir línubátar, Tjaldur, Örvar og Rifsnes, sem eru um 800 tonn og einn smærri, sem er Hamar. Allir eru þeir með beitningarvélar um boð og landa til vinnslu hjá fiskvinnslufyrirtækjunum þar. Þar er líka mjög öflug útgerð smábáta á línu. Þeirra á meðal eru nokkrir af stærri gerðinni, 30 tonn og 15 metra langir. Útgerðin í Snæfellsbæ er öflug og fiskvinnslan sömuleiðis. Hér í Ólafsvík er fiskverkunin Valafell, sem er í flöttum saltfiski. Á Rifi eru svo Sjávariðjan, KG fiskverkun og Hraðfrystihús Hellissands. Öll þessi fyrirtæki eru bæði í veiðum og vinnslu. Að auki er svo fiskþurrkunin Klumba í Ólafsvík. Fiskverkunin Bylgja varð gjaldþrota á síðasta hausti en nú hafa þrír útgerðarmenn smábáta tekið húsið á leigu og frysta þar makríl í beitu fyrir sjálfa sig og aðra,“ segir Björn.

Svo má nefna að frá Ólafsvík er gerður út hvalaskoðunarbátar og hefur verið undanfarin ár. Með honum fara mörg þúsund farþegar á ári, en báturinn fer tvær ferðir á dag. Í sveitarfélaginu er mikið um ferðamenn allt árið um kring og sækja mikið í höfnina á Stapa, sem er mjög falleg og hefur verið löguð mikið síðustu ár.

Mikið er um smábáta í Höfninni á Ólafsvík, enda aðstæður þar mjög góðar.

Mikið er um smábáta í Höfninni á Ólafsvík, enda aðstæður þar mjög góðar.

Langstærsti hluturinn af lönduðum afla í Snæfellsbæ er þorskur, enda bátarnir með miklar þorskveiðiheimildir. Þar landa líka aðkomubátar þegar fiskast á miðunum þar fyrir utan. Fiskurinn fer bæði til vinnslu á svæðinu og á markað og til vinnslu annars staðar. Í sveitarfélaginu eru reknir tveir fiskmarkaðir, Fiskmarkaður Íslands og Fiskmarkaður Snæfellsbæjar. Mikið af afla fer í gegnum þá báða.

Aflaverðmæti um 7 milljarðar

„Aflaverðmæti í höfnum Snæfellsbæjar er allt að 7 milljörðum króna á ári að meðaltali. Þetta eru mikil verðmæti og tekjur okkar, aflagjöldin eru ákveðið hlutfall af því. Þau eru um 65% af heildartekjum okkar og því skiptir miklu máli fyrir okkur að fiskverð sé hátt. Árið 2016 voru tekjurnar 195 milljónir króna. Það var besta ár í sögu hafnanna eftir að allt var sameinað í eitt sveitarfélag, Snæfellsbæ. Í fyrra skriðum við rétt í 165 milljónir. Það var tvennt sem olli því, lækkandi fiskverð og sjómannaverkfall í nærri tvo mánuði. Landaður afla dróst því saman um 5.000 tonn. Nú sýnist mér að á fyrstu átta mánuðum ársins séum við með 5.000 tonnum meira afla en á sama tíma í fyrra.

Það er mikill styrkur fyrir sveitarfélagið hve öflugur sjávarútvegur er rekinn hér og sérstaklega ánægjulegt hve fyrirtækin eru samfélagslega sinnuð. Það vigtar svo mikið í svona samfélögum. Það er svo margt sem þau eru að styrkja, ekki bara íþróttir, líka björgunarsveitir og fleira.

Svo er verið að smíða nýjan bát sem kemur í febrúar. Það er Pétur Pétursson, útgerðarmaður Bárðar á Arnarstapa, sem er að láta smíða fyrir sig plastara í Danmörku. Ég held að hann sé 20 metra langur og enginn íslenskur plastbátur er svo stór. Það er ánægjulegt  að menn séu að láta smíða fyrir sig nýja báta.

Miklar framkvæmdir

Mikið er um smábáta í Höfninni á Ólafsvík, enda aðstæður þar mjög góðar.

Miklar framkvæmdir hafa verið við höfnina á Rifi, stálþil endurnýjað og ný þekja steypt á höfnina.

Við erum búnir að vera í heilmiklum framkvæmdum undanfarin ár. Nú erum við búnir að vera í mjög stóru verkefni í Rifi, endurnýja 200 metra langt stálþil og steypa nýja þekju á höfnina, rúmlega 5000 fermetra. Á síðustu 10 árum höfum við verið að framkvæma fyrir allt að 1.500 milljónir. Við gætum ekki verið að framkvæma svona mikið nema af því að hafnabótasjóður kemur að þessu með ákveðna styrki, að hámarki 75% af heildarkostnaði. Hafnir væru almennt ekki í svona miklum framkvæmdum nema hafnabótasjóður kæmi þar myndarlega við sögu. Við erum bara með 190 milljónir í árstekjur og ætli maður sér að framkvæma fyrir 500 milljónir, myndi maður ekki gera annað næstu 20 árin en að greiða niður lánin,“ segir Björn Arnaldsson.

 

Myndir og texti Hjörtur Gíslason.

Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri

 

 

 

 

Deila: