-->

300 manns og 20 flugvélar í æfingum

Þjálfunarverkefnið „Iceland Air Meet 2014 (IAM 2014)” var formlega sett í gærmorgun að viðstöddum yfirmönnum þjóðanna sem taka þátt í æfingunni og fulltrúum Landhelgisgæslunnar. Þátttakendur Iceland Air Meet 2014 (IAM2014) koma frá aðildarríkjum NATO þ.e. Íslandi, Noregi, Hollandi og Bandaríkjunum. Einnig taka þátt í æfingunni flugsveitir frá Finnlandi og Svíþjóð sem eru þátttakendur í samstarfinuPartnership for Peace.

Meðan á æfingunni stendur er flugsveit Norðmanna við loftrýmisgæslu NATO hér við land. Verkefnið er unnið skv. loftrýmisgæsluáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland.
Sagt er fra þessu á heimasíðu Landhelgisgæslunnar. Gert er ráð fyrir að samtals verði um að ræða um 300 liðsmenn frá þjóðunum og um 20 flugvélar.  Finnar leggja einnig til tværNH-90 björgunarþyrlur sem verða m.a. við æfingar með flugdeild Landhelgisgæslunnar. Þyrlurnar voru einnig fengnar til að taka þátt í víðtækri leit sem fór fram í gær á Faxaflóa.  Til viðbótar framangreindu taka þátt í verkefninu eldsneytisbirgðaflugvélar frá bandaríska og hollenska flughernum ásamt ratsjárflugvél Atlantshafsbandalagsins og starfsmenn Landhelgisgæslunnar.
Hlutverk Landhelgisgæslunnar er að annast rekstur varnar- öryggis- og upplýsingakerfa NATO hér á landi, rekstur öryggissvæða- og  mannvirkja og vera í samskiptum við stofnanir Atlantshafsbandalagsins, aðildarþjóðirnar og Norðurlandaþjóðirnar og hinsvegar samskipti við þá aðila hér á landi sem að verkefninu koma t.d. Isavia. Í því felst m.a. framkvæmd loftrýmiseftirlits í stjórnstöð NATO á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli (Control and Reporting Centre). Verkefnið er hluti af samþættu verkefni NATO, „NATO intergrated air defence system – „NATINADS“. Fulltrúar þjóðanna munu starfa í stjórnstöðinni ásamt starfsmönnum Landhelgisgæslunnar.
Landhelgisgæslan annast einnig allt það sem snýr að gistiríkjastuðningi, það felst m.a. í að veita nauðsynlega borgaralega aðstoð,  þjónustu og aðstöðu fyrir mannafla og búnað, þ.m.t. er gisting.   Undirbúningur verkefnisins hófst fyrir ári  og gagnast verkefnið m.a. vegna þeirra breytinga sem eru fyrirsjáanlegar á Norðurslóðum. Verkefnið þjálfar  þjóðirnar í að flytja  tæki, búnað og mannafla langar vegalengdir og Landhelgisgæsluna í að taka á móti svo stórum hópi, annast gistiríkjastuðning og taka þátt í ýmiskonar skipulagi og áætlanagerð varðandi æfinguna. Slík þjálfun nýtist í öllum verkefnum hvort sem þau tengjast hernaðarógn, náttúruvá eða leit og björgun.