Mikil bylting að fá faxtækið

109
Deila:

Maður vikunnar hefur unnið í sjávarútvegi frá 18 ára aldri og lengst af sem verkstjóri. Síðustu rúmlega 20 árin hefur hann verið í Þorlákshöfn.  Fjölbreytileikinn í vinnslu getur verið skemmtilegur, þó það geti nú líka stundum verið erfitt að skipuleggja vinnslu þegar þú veist ekkert hverju er von á.

Nafn:

Ásgeir Ingvi Jónsson.

Hvaðan ertu?

Fæddur út í sveit á Óslandi í Skagafirði.

Fjölskylduhagir?

Í sambúð með Halldóru Halldórsdóttur.  Ég eignaðist tvö börn en missti dóttur mína árið 2006.  Konan á svo 2 börn og 2 barnabörn.

Hvar starfar þú núna?

Verkstjóri hjá Ramma hf. í Þorlákshöfn.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég var 18 ára þegar ég fór að vinna hjá Hraðfrystihúsinu í Hofsós.  Reiknaði nú bara með að vera þar stuttan tíma. Tveimur árum síðar var ég beðinn um að vera aðstoðarverkstjóri.   Ég hef síðan verið verkstjóri á nokkrum stöðum á landinu en síðan 1997 hef ég verið í Þorlákshöfn. 

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Fjölbreytileikinn í vinnslu getur verið skemmtilegur, þó það geti nú líka stundum verið erfitt að skipuleggja vinnslu þegar þú veist ekkert hverju er von á.  Líka að hafa fengið að taka þátt í tækniframförum síðustu ára.  Þegar ég byrjaði var ekki til faxtæki og þótti það mikill bylting að fá það.

En það erfiðasta?

Starfsmannamál geta stundum verið erfið, sérstaklega þegar þú vinnur í litlum bæjarfélögum þar sem allir þekkja alla.  

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Margt skrýtið hefur nú komið fyrir í gegnum tíðina en ætli sé ekki best að segja frá því þegar ég gleymdi því að ég var að tala í símann á Grenivík.  Þetta var fyrir tíð gsm og slíks búnaðar.  Það var kallað á mig fram í sal og ég bað manninn að bíða aðeins.  Fór svo fram og gerði það sem þurfti þegar ég kom inn aftur ca. 15 mín síðar skildi ég ekkert í því að símtólið lá á borðinu.  Það merkilega var að maðurinn beið en þá  í símanum.  

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Mér dettur nú bara í hug sá sem réði mig á sínum tíma en það var Hólmgeir Einarsson, síðar fisksali í Breiðholtinu. Hann kenndi mér margt sem nýst hefur enn þann dag í dag.  Ég gæti líka nefnt  „gömlu“  trillukarlana í Hrísey, er reyndar nýbúinn að átta mig á því að þeir voru lítið eldri þá  en ég er í dag og ég er þó mjög ungur en þá.

Hver eru áhugamál þín?

Ég spila bridge og er ný byrjaður aftur í hestamennsku eftir margra ára hlé.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Góða nautasteik er verulega góð.

Hvert færir þú í draumfríið?

Annað hvort mundi ég liggja í leti á Tenerife eða fara í hestaferð um óbyggðir Íslands.

 

Deila: