-->

3X Technology fagnar 20 ára afmæli

Tæknifyrirtækið 3X Technology á Ísafirði fagnar um þessar mundir tuttugu ára afmæli. Jóhann Jónasson, framkvæmdaststjóri og einn stofnenda 3X, segir í grein í bb.is í dag að staðsetning fyrirtækisins á Ísafirði hafi á þeim tíma verið augljós. „Það var mikil uppbygging í rækjuiðnaði á svæðinu og því þörf fyrir fyrirtæki sem stundaði nýsköpun á því sviði. Einnig var okkur heimahaginn kær og þarna vildum við vera með fjölskyldur okkar. Forsvarsmenn rækjuiðnaðarins sáu augljós tækifæri í stöðunni og nýttu sér vel þjónustu okkar og voru þessar rækjuvinnslur ávallt bárunni framar í framleiðni og nýtingu samanborið við vinnslur annars staðar,“ segir í grein Jóhanns.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum tuttugu árum. Fljótlega eftir stofnun fyrirtækisins varð útflutningur fyrirtækinu mikilvægur. „Árið 1998 var blásið í seglin og haldið á erlend mið. Fyrir valinu varð rækjuiðnaðurinn í Kanada sem þá var að hefja uppbyggingu. Þangað fóru m.a. íslenskir vinnslumenn sem þekktu til okkar og þar með hófst útflutningur félagsins. […] Áður en langt um leið náði okkar litla fyrirtæki viðskiptum við meira en 80% rækjuvinnslna á Nýfundnalandi, Nova Scotia og Labrador.“
Fyrir stuttu var meirihluti hlutafjár í 3X Technology seldur til IÁ hönnunar á Akranesi sem er móðurfélag tæknifyrirtækisins Skagans. „Framundan er enn frekari uppbygging með víðtæku samstarfi við systurfélag okkar, Skagann á Akranesi. Það er okkar fyrirtæki nauðsynlegt að eflast enda erum við ansi smá eining í alþjóðlegum samanburði. Með auknu samstarfi er vonast til að ná fram meiri slagkrafti m.a. í sölu og markaðsstarfi félaganna á erlendum mörkuðum.
Opið hús verður hjá 3X Technolology á Ísafirði á laugardag og Ísfirðingar og nærsveitungar boðnir velkomnir að kynna sér starfsemi fyrirtækisins.