500 tonn af laxi í sláturskip sem sigldi með afurðirnar til Danmerkur

196
Deila:

Laxeldisfyrirtækið Arctic Fish fékk norska sláturskipið Norwegian Gannet til að slátra 500 tonnum af laxi í byrjun vikunnar og sigla með til Danmerkur. Óhefðbundin en nauðsynleg aðgerð segir forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish. Nýtt fiskisláturhús er á teikniborðinu. Frá þessu er greint á ruv.is
Norska sláturskipið Norwegian Gannet tók  500 tonn af laxi í Tálknafirði og slátraði í byrjun vikunnar. Sláturhúsið í Bíldudal hafði ekki undan. Eldið hefur gengið það vel í Dýrafirði að vöxturinn jafngildir um fimm milljörðum króna frá því í apríl að sögn fulltrúa fyrirtækisins.

Sláturhúsið annar ekki afköstum
Fiskinum var slátrað um borð, hann frumunninn og siglt með hann til Hirshals þar sem hann fer til vinnslu. Fiskmassinn í Dýrafjarðareldinu hefur aukist um sex þúsund tonn frá því í apríl. Daníel Jakobsson er forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish. „Hjá okkur er það þannig að við slátrum öllum okkar fiski á Bíldudal og nú er bara svo komið að það er búið að vera mjög gott gengi í eldinu hjá okkur í allt sumar og sláturhúsið á Bíldudal annar bara ekki afköstum þessi misserin og af þeirri staðreynd að við erum að verða komin að hámark að leyfunum okkar í Dýrafirði þá neyddumst við til að taka þetta skip inn til að lækka aðeins lífmassann hjá okkur og gera okkur kleift að vera undir þeim leyfum sem við erum með til að ala fisk í sjó,“ segir Daníel. 

Áform um nýtt sláturhús
Matvælastofnun gaf leyfi fyrir notkun skipsins. Kröfur voru gerðar um að skipið færi í slipp, í sérstök þrif og það sótthreinsað og vottað áður en heimild fékkst fyrir notkun þess hér. Skipið hefur einu sinni áður komið til landsins. Það var þegar óveðrið var sem verst í febrúar 2020 og tók það þá þátt í fiskislátrun hjá Arctic Seafarm eldisstöðinni sem er með sjókvíar við Hvannadal í Tálknafirði. Áform eru um að byggja nýtt sláturhús fyrir laxeldið á Vestfjörðum fyrir Arctic Fish og Arnarlax sameiginlega. Gert er ráð fyrir að nýja sláturhúsið anni 50 þúsund tonnum í fyrsta áfanga.

Deila: