-->

70% samdráttur í aflaverðmæti á Austurlandi í janúar

Verðmæti andaðs afla í öllum landshlutum dróst verulega saman í janúarmánuði síðastliðnum. Samdrátturinn er nærri 40% í heildina miðað við sama mánuð í fyrra. Það skýrist að miklu leyti af verulegum aflasamdrætti, reyndar var að langmestu vegna loðnubrests í mánuðinum nú. Aðeins veiddust 19.516 tonn af loðnu nú, en 109.642 tonn nú. Botnfiskafli á sama tíma er hins vegar aðeins tæpum 4% minni nú. Þess vegna kemur samdrátturinn mest niður á þeim landshlutum, sem taka að öllu jöfnu á móti miklu af loðnu til vinnslu í janúar.
Þetta má lesa út úr tölum Hagstofu Íslands, þegar litið er bæði á verðmæti landaðs afla og aflamagn í janúar. Þannig má sjá að samdráttur í verðmæti landaðs afla á Austurlandi er hvorki meiri né minni en 70%. Á Norðurlandi eystra dróst verðmætið saman um 51% og 42% á Suðurlandi. Í þessum landshlutum eru fyrirtæki sem að öllu jöfnu taka á móti miklu af loðnu. Þar má nefna Vestmanneyjafyrirtækin Ísfélagið og Vinnslustöðina, Skinney-Þinganes á Höfn, Loðnuvinnsluna á Fáskrúðfirði, Síldarvinnsluna í Neskaupstað og á Seyðisfirði,  HB Granda á Vopnafirði og Ísfélagið á Þórshöfn. Loðnubresturinn kemur því illa niður á þessum stöðum og fyrirtækjum. Þegar litið er á tólf mánaða tímabilið frá febrúar 2013 til janúar 2014 er samdrátturinn mun minni, aðeins 6,8% og endurspeglar fyrst og fremst lægra verð á fiski upp úr sjó.
Landaður afli skilaði í janúar mestum verðmætum á höfuðborgarsvæðinu, rétt tæpum tveimur milljörðum, sem er 13,7% samdráttur. Næst koma Suðurnesin með 1,7 milljarða og þar er samdrátturinn 19,1%. Austurland er í þriðja sæti með rétt rúman milljarð, þrátt fyrir 70,6% aflasamdrátt, en í janúar í fyrra var aflaverðmætið fyrir Austan það langmesta, eða 3,5 milljarðar.  Þar reið loðnan baggamuninn.