800 tonna síldarhal í nýtt Gloríuflottroll

Deila:

,,Þetta var fyrsta halið með nýja trollinu og það er ekki hægt að segja að byrjunin sé amaleg. Við náðum ekki að toga í nema klukkutíma vegna þess hve skörp innkoman í trollið var og þegar við hífðum þá voru 800 tonn af síld í pokanum,“ segir Gísli Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK, en hann og áhöfn hans fengu á dögunum eitt stærsta síldarhol sem fengist hefur á Íslandsmiðum á einnar klukkustundar togi.

Gísli Runólfsson

Gísli og hans menn hafa verið á makrílveiðum fyrir Síldarvinnsluna í sumar en skipin hafa upp á síðkastið tekið stöku síldartúra. Röðin var komin að Bjarna Ólafssyni í síðustu viku.

Feit og falleg síld

,,Við fórum á Glettinganesgrunnið sem er þriggja tíma fjarlægð frá Norðfirði. Við vorum með nýtt 2048 Gloríu Helix síldarflottroll, svokallaða 2019 útfærslu, og það má segja að við höfum rétt náð að dýfa trollinu til að fá þetta mikla magn,“ segir Gísli en hann kveður innkomuna í trollið hafa verið það skarpa að ekki gafst tími til að mæla almennilega opnunina á trollinu.

,,Sem fyrr segir var þetta fyrsta kast en það tók smá tíma að finna út hve þung lóð ætti að nota við trollið. Við erum með fjögurra tonna og 13,5 m2 toghlera og þetta small allt saman hjá okkur. Grandaralengdin var 80 metrar. Við toguðum á 170 metra botndýpi með 200 metra milli hlera og höfuðlínuhæðin var 60 metrar. Þetta er venjulegt troll og því án lyftifleka. Miðað við þessa góðu byrjun get ég varla beðið eftir því að síldveiðar hefjist fyrir alvöru. Það er greinilega mikið af síld á ferðinni, og það sem við fengum var allt feit og falleg síld. Meðalvigtin hjá okkur var 380 grömm og það gerist ekki betra,“ sagði Gísli Runólfsson.

Sannað sig vel í síldinni

Glorían í tilraunatanki.

Að sögn Einars Skaftasonar hjá Hampiðjunni að þá hefur 2048 Glorían með 32 metra Helix möskvanum sannað sig vel í síldinni að undanförnu. Áhöfnin á Beiti náði á síðasta ári  mjög góðum árangri með veiðarfærið og því voru fyrstu veiðifréttir frá Gísla  mjög  áhugaverðar og ánægjulegar. Helsti munurinn á nýju útfærslunni og hinum eldri  eru smærri Helix möskvar fremst í trollinu. Þeir  eru 32 metrar að lengd  í stað 64 metra möskva í hefðbundnum Gloríum af þessari stærð.  Þá er aftur belgurinn   víðari og með öðru sniði. Að undanförnu höfum við þróað hann áfram og í nýjustu útfærslunni sem fór um borð í Bjarna Ólafsson eru t.d. fleiri spólur með 60mm möskva sem lágmarkar ánetjun í trollinu. Straumflæði í belgnum er mjög gott og samsetning á möskvastærðum, belgsniðið og Helix netið fremst í trollinu, virka  sannarlega vel við síldveiðarnar segir Einar Skaftason.

Deila: