„Á verulegum villigötum“

98
Deila:

„Í gær hélt Ríkisútvarpið áfram aðför sinni að Samherja með umfjöllun sem var að vanda með nokkrum ólíkindum. Þar voru á víxl endurunnar gamlar fréttir frá Kýpur, dregnir fram á sjónarsviðið endurskoðendur sem settu alls kyns fullyrðingar fram án rökstuðnings og loks var fundinn til nýr Namibíumaður sem enginn innan Samherja hefur heyrt getið fyrr en nú.“

Svo segir í bréfi Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja til starfsmanna fyrirtækisins. Bréfið er birt á heimasíðu Samherja. Þar segir ennfremur:

Þorsteinn Már Baldvinsson

„Framsetningin var á löngum köflum leikræn og sýndi til dæmis fréttamenn Ríkisútvarpsins furðu lostna yfir því að enginn hafi svarað dyrabjöllu á skrifstofu í Limassol á Kýpur. Virtist þeim einum manna ókunnugt um að í borginni ríkti allsherjar útgöngubann. Þar fyrir utan hefði mátt stytta leitina að skrifstofum Samherja verulega því öll starfsemi Samherja á Kýpur var flutt til Hollands fyrir rúmu hálfu ári. Öll umfjöllunin á Kýpur beindist að því að Samherji hefði komist hjá því að greiða tekjuskatt þar en samtímis var því haldið fram að enginn hagnaður hafi verið á Kýpur því hann hafi allur verið fluttur úr landi. Er vandasamt að sjá hvernig þetta tvennt getur farið saman.

Samherji hefur nú loks komist yfir skýrslu endurskoðendanna tveggja sem fóru mikinn í Kveiksþættinum í gær. Skýrslan var unnin að beiðni fyrrum samstarfsaðila Samherja og núverandi samstarfsaðila Kveiks sem undanfarið hafa efnt til ýmissa málaferla gegn okkur án nokkurs árangurs. Í skýrslunni eru fjölmargir fyrirvarar (sjá hjálagt) þar sem endurskoðendurnir viðurkenna meðal annars að þeir ræddu aldrei við nokkurn mann frá Samherja, höfðu aðeins takmarkaðan aðgang að gögnum og gátu ekki framkvæmt verðmat á helstu eignum. Í engu var þó vikið að þessum fyrirvörum í Kveik og endurskoðendurnir ekkert spurðir um þá. Það þarf varla að koma á óvart þegar vinnubrögð Ríkisútvarpsins eru annars vegar.

Eitt sláandi dæmi er að skýrsluhöfundar fullyrða að hlutur namibísku samstarfsfélaganna, sem þeir skrifuðu skýrsluna fyrir, í félaginu Arcticnam ætti að vera hreinar 80 milljónir Bandaríkjadollara og hlutur Samherja 70 milljónir dollara. Af hlut Samherja átti að greiða allan kostnað, svo sem olíu, laun skipverja, umbúðir, viðhald og leigu á skipum. Öllum má vera ljóst að hér eru skýrsluhöfundar á verulegum villigötum.

Í þættinum var kynntur til sögunar Tobie nokkur Aupindi, fyrrverandi stjórnarformaður Fiskneyslusjóðs Namibíu. Enginn innan Samherja hefur heyrt hans getið áður. Í þættinum var fullyrt að hann hefði fengið greidda 1 milljón Namibíudollara í reiðufé á árinu 2012 fyrir milligöngu um úthlutun kvóta. Er sú fullyrðing byggð á yfirlýsingu frá Jóhannesi Stefánssyni um að hann hafi tekið út reiðufé og greitt þessum manni. Fullyrðing þessi stangast á við tvær aðrar undirritaðar yfirlýsingar frá Jóhannesi sem lagðar voru fram í tengslum við málarekstur í Namibíu. Önnur er undirrituð 21. febrúar 2018 og hin 23. janúar 2019 (sjá neðar) en í báðum þeirra staðfestir Jóhannes að hann hafi greitt allt öðrum manni, Virgillo J de Sousa, þessa tilteknu fjárhæð. Frá þessu hafa þáttagerðarmennirnir sagt áður þótt það hafi farið framhjá þeim við gerð þáttarins sem sýndur var í gær. Þannig hafa þeir nú upplýst um ósannindi þessa aðal heimildarmanns síns.

Þessi þáttur raskar ekki ró minni og ljóst er að ekkert í honum mun gefa embætti héraðssaksóknara tilefni til aðgerða hér á landi. Þá komu engar fullyrðingar þar fram sem ekki er hægt að hrekja og mun Samherji gera það með sínum hætti á næstunni.

Ég þakka ykkur enn á ný fyrir stuðninginn. Saman munum við fara í gegnum þetta mál eins og við höfum gert áður.“

 

 

Deila: