Ábati fjárfestinga er minni losun

92
Deila:

 „Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa ráðist í verulegar fjárfestingar á undanförnum árum. Í raun hefur fjárfesting í greininni ekki verið meiri en á undanförnum árum ef skoðað er ríflega 30 ára tímabil, eða allt frá því að upphafleg lög um stjórn fiskveiða tóku gildi. Fjárfestingar hafa bæði verið í nýjum sparneytnari skipum og vinnslum sem eru búnar hátæknivélum, sem oftar en ekki eru íslenskt hugvit og smíð.“

Þannig hefst pistill frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi um fjárfestingar og loftlagsmál. Þar er ennfremur ritað:

„Þessar fjárfestingar eru nauðsynlegar og hafa verið ráðandi þáttur í að tryggja samkeppnishæfni greinarinnar í alþjóðlegri samkeppni, stuðlað að aukinni verðmætasköpun og treyst áframhaldandi atvinnu hér á landi. Árangur fyrirtækjanna við að minnka kolefnissporið er þó einn veigamesti ábatinn sem fengist hefur með aukinni fjárfestingu.

Nánar um fjárfestingu og loftslagsmál má sjá á Radarnum, en þar hafa tölur verið uppfærðar. Þar má meðal annars sjá að heildarlosun á CO2 frá sjávarútvegi og matvælaiðnaði hefur verið ríflega helmingi minni á undanförnum árum en hún var undir lok síðasta áratugar. Langstærsti hluti þess samdráttar er vegna minni olíunotkunar í sjávarútvegi. Í raun hefur sjávarútvegi tekist að draga allverulega úr olíunotkun án þess að það komi niður á framleiðslu og gott betur. Það er afar ákjósanleg þróun og sjaldséð því vanalega eykst olíunotkun og kolefnissporið stækkar þegar umsvif einstaka atvinnugreina aukast. Þetta má rekja til fjárfestinga í nýjum skipum, sem eru búin nýrri tækni og eru sparneytnari en þau sem eldri eru. Eins hafa framfarir í veiðum, betra skipulag á veiðum og fækkun skipa dregið úr olíunotkun.

Þennan árangur ber fyrst og fremst að þakka fiskveiðistjórnunarkerfinu, enda gætir áhrifa þess á alla þá þætti sem hér koma við sögu. Kerfið felur í sér hagræna hvata og stuðlar að því að langtímahugsun sé ráðandi hjá sjávarútvegsfyrirtækjum. Það er afar mikilvægt, enda skapar það nauðsynlegan fyrirsjáanleika í sjávarútvegi. Það auðveldar fyrirtækjum að ráðast í langtímafjárfestingar og að skipuleggja starfsemina með langtíma hagsmuni að leiðarljósi. Það er nefnilega svo að óvissa er meiri í sjávarútvegi en gengur og gerist í mörgum öðrum geirum atvinnulífsins. Sveiflur í stærð fiskistofna eru einn stærsti óvissuþátturinn sem sjávarútvegsfyrirtæki þurfa að glíma við umfram aðrar atvinnugreinar. Nærtækast er þar að nefna loðnubrest tvö ár í röð, 2019 og 2020.“  

Deila: