Aðalfundur Brims á netinu

87
Deila:

Aðalfundur Brims hf. þetta árið verður væntanlega mjög fámennur. Stjórn félagsins hvetur, í ljósi aðstæðna, hluthafa til þess að mæta ekki á fundinn, sem verður haldinn þriðjudaginn 31. mars kl. 17:00.

„Þar sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögu sóttvarnarlæknis, að takmarka samkomur vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar hefur verið lagt bann við því að halda fjölmennan fund. Því hafa forsendur breyst verulega frá því að aðalfundur Brims hf. var auglýstur og ekki lengur tækt að safna hluthöfum saman til fundar á einn stað.

Í ljósi þess og ábendingum frá hluthöfum félagsins beinir stjórnin því til hluthafa að mæta ekki á aðalfundinn heldur kjósa fyrirfram skriflega um tillögur fundarins og fela fundarstjóra umboð til að kjósa á fundinum fyrir sína hönd. Gert er ráð fyrir að einungis mæti á fundarstað starfsmenn fundarins, forstjóri og stjórnarformaður,“ segir í frétt frá Brimi.

Fundurinn verður sendur út gegnum heimasíðu félagsins: https://www.brim.is/brim/fjarfestar/adalfundur2020/ Þar verður útbúinn sérstakur hlekkur áður en fundur hefst. Aðgangsorð inn á fundinn verður sent við móttöku atkvæðaseðils með umboði.

 

Deila: