Ærið verkefni að taka í notkun nýjan orkugjafa á fiskiskipum

187
Deila:

Skýrsla um orkuskipti á hafi var kynnt í Hörpu í gærmorgun, miðvikudaginn 8. desember. Skýrslan var unnin af norska ráðgjafafyrirtækinu DNV fyrir Samorku, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Faxaflóahafnir. Farið er yfir stöðuna í frétt frá Samtökum fyrirtækja í sjavarútvegi.
 
Skýrslan sem nú liggur fyrir staðfestir að vissu leyti það sem þegar var vitað; það er ekki auðsótt að fara í orkuskipti á hafi. Íslenski skipaflotinn fer ekki í heild sinni út á rafhlöðum einum saman. Rafeldsneyti er líklegast, en tækni fyrir fiskiskip er ekki tilbúin og því er ekki hægt að ákveða hvaða orkugjafi muni henta best. Þá verður líka að nefna, að það verður ekki í höndum sjávarútvegs að ákveða hvaða eldsneyti verður hægt að kaupa á Íslandi í framtíðinni. Það er ekki ólíklegt að það verði metanól eða ammoníak, en það getur líka tekið allt aðra stefnu. Það verður varla byggður upp lager og dreifikerfi fyrir margar tegundir af eldsneyti. Fyrr en það liggur fyrir, er ekki hægt að fjárfesta í framtíðarskipinu.
 
Fram undan er ærið verkefni. Til þess að taka í notkun nýjan orkugjafa á fiskiskipum þarf að komast í gegnum hindranir á borð tækniþroska, geymslu orkunnar um borð, öryggismál, innviði, framboð á orku og aukinn kostnað af fjárfestingu og rekstri.
 
Allt mun þetta taka tíma, en til að tryggja að þetta verði að veruleika – og tímanlega – þarf hagræna hvata. Og þar kemur enn annað úrlausnarefni, það er vandasamt að ákveða hvaða hvatar geti skilað okkur árangri. Í skýrslunni er meðal annars fjallað um að hækkun kolefnisgjalds muni ekki leiða til orkuskipta nema tæknin sé tilbúin á markaðnum. Beita þarf réttum hvötum á réttum tíma – alls ekki of snemma og helst þannig að gjöld hér á landi séu sambærileg við samkeppnislönd, þannig að samkeppnisstaða sé ekki skert. Í þessari vegferð má með öðrum orðum ekki missa sjónar af samkeppnishæfni sjávarútvegs og íslensks efnahagslífs.
 
Útdrátt úr skýrslunni á íslensku má lesa hér.  
Skýrslan í heild er hér.

Deila: