Ævintýraferð vestur í Grundarfjörð

355
Deila:

Maður vikunnar byrjaði að vinna við sjávarútvegi hjá Ísfélagi Vestmannaeyja 1974 á Kirkjusandi og 1977 var hann ásamt félögum sínum munstraður á vetrarvertíð í Fagurey SH. Nú er hann verkefnastjóri í kalkþörungavinnslu.

Nafn:

Einar Sveinn Ólafsson.

Hvaðan ertu?

Fæddur í Vestmanneyjum en ólst upp við moldargötu í austurbæ Kópavogs.

Fjölskylduhagir?

Kvæntur Hafdísi Gísladóttur hannyrðakonu frá Grundarfirði, Við eigum tvö börn og tvö barnabörn.

Hvar starfar þú núna?

Ég er verkefnastjóri hjá Marigot ltd á Írlandi sem á og rekur Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal og undirbýr nýja verksmiðju í Ísafjarðardjúpi.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég byrjaði fyrst í sjávarútveginum hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Kirkjusandi árið 1974 og var þar á sumrin og með skóla á veturna. Árið 1977 fór ég svo ásamt vinnufélögum á sendibílastöð Kópavogs í ævintýraferð vestur í Grundarfjörð þar sem við vorum ráðnir á vetrarvertíð um borð í Fagurey SH 71. Þar réð ríkjum ljúfmennið Þorvarður heitinn Lárusson.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það er fjölbreytileikinn og tækifærið til að taka þátt í stöðugri framþróun greinarinnar. Það hefur verið ævintýri að upplifa framfarirnar sem orðið hafa í t.d. í veiðum, vinnslu og nýtingu sjávarauðlindarinnar. Þegar ég fór fyrst að vinna í „fiski“ þá voru lyftarar notaðir til að ýta fiski á færibönd sem fluttu hann inn í vinsluna. Goggar og gaflar voru notaðir við að moka fiski í löndunarmál. Aðeins 30% af fiskinum voru nýtt. Í fréttaskýringarþáttum og fjölmiðlum var þangvinnsla í ruslflokki og talað um sóun fjármuna. Kalkþörungar voru eingönu nýttir sem áburður. Í dag er sjávarfangið sem berst til lands nýtt nær 100%. Skipin koma ekki lengur með tonn að landi úr hverri ferð heldur ber flotinn að landi þúsundir tonna af gífurlegum verðmætum sem allir landsmenn njóta með einum eða öðrum hætti í formi aukinnar velsældar. Þang er nú ein eftirsóttasta sjávarauðlindin sem notað er í mjög fjölþætta framleiðslu, ekki síst í því skyni að bæta heilsu manna og dýra. Sú þróun hefur ekki síst átt sér stað í samstarfi við færustu sérfræðinga í heilbrigðisvísindum. Tækifærin eru endalaus og það gerir starfið og atvinnugreinina svo spennandi.

En það erfiðasta?

Það er erfitt að hlusta á þröngsýnina í þeim sem gagnrýna sjávarútveginn sem harðast. Umræðan um sjávarútveginn er á svo miklum villigötum og það er niðurdrepandi.  Við eigum að nýta öll tækifæri til sjávar og sveita í sátt við náttúruna. Á sama tíma þarf að tryggja að afrakstri auðlindanna sé skipt á sanngjarnan hátt milli atvinnufyritækjanna og samfélagsins í heild.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það er svo margt skrýtið, oftast skemmtilega skrýtið, að ég get ekki gert upp á milli tilvikanna.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Minnistæðast er mér fólkið sem stofnaði þorpið Grafarnes við Grundarfjörð. Það var hópur dugnarfólks sem þurfti að hafa fyrir lífinu. Ólíkir einstaklingar sem byggðu upp, voru framsýnir og höfðu sterka trú á plássinu.


Hver eru áhugamál þín?

Barnabörnin eru helsta áhugamálið. Svo finnst okkur hjónum afar gott að slaka á í litlu íbúðinni okkar á Spáni. Höfum reyndar lítið geta komist vegna kófsins.


Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Steiktar gellur hjá tengdarmóður minni, Lilju Finnbogadóttur.


Hvert færir þú í draumfríið?

Hvert sem er með konu, börnum, tengdasyni og barnabörnum.

Deila: