-->

Ævintýralegur útflutningur Norðmanna á þorski

Norðmenn fluttu út sjávarafurðir að verðmæti 16,8 milljarðar norskra króna á fyrsta fjórðungi þessa árs. Það er 25% aukning miðað við sama tímabil í fyrra. Ævintýralegur útflutningur á vertíðarþorski ræður þarna miklu, en aukning á útflutningi á ferskum þorski er 65%. Í íslenskum krónum nemur útflutningsverðmætið ríflega 318 milljörðum.
Í marsmánuði skilaði útflutningur sjávarafurða frá Noregi 106 milljörðum íslenskra króna. Það er aukning um 22% eða um 19milljarða íslenskra króna.
„Mikil eftirspurn efir laxi og ævintýraleg veiði af þorski á vetrarvertíðinni eru helstu skýringarnar á því við setjum enn met á fyrsta ársfjórðungi,“ segir Egil Ove Sundheim, framkvæmdastjóri markaðsupplýsinga í Norges sjømatråd, útflutningsráði Noregs fyrir sjávarafurðir.
Á fyrsta fjórðungi ársins skilaði útflutningur á ferskum heilum þorski og ferskum flökum 14,6 milljörðum íslenskra króna. Þetta er aukning um 66% eða 5,8 milljarða króna miðað við sama tímabil 2013. Í magni mælt jókst útflutningurinn um 15.000 tonn og varð hann alls 37.000 tonn. Í mars var verðmæti útflutts fersks þorsks um 5 milljarðar. Það er aukning um 35% eða 1,3 milljarða íslenskra króna.
Útflutningur á frystum þorski skilaði 12,5 milljörðum króna fyrstu þrjá mánuði ársins. Það er aukning um 58% eða 4,5 milljarða króna. Magnið jókst um 14.000 tonn og fór í 36.000 tonn. Í marsmánauði fór frystur þorskur að verðmæti 3,6 milljarðar utan sem er aukning um 53% eða 1,3 milljarða króna.
Útflutningur á laxi skilaði 203 milljörðum íslenskra króna á fyrsta fjórðungi ársins, sem 33% aukning eða um 49 milljarða króna. Í mars var fluttur út lax að andvirði 70 milljarða króna. Það er aukning um 15 milljarða eða 27%. Meðalverð á ferskum heilum laxi frá Noregi var í mars 832 krónur á kíló en í fyrra var verðið í marsmánuði að meðaltali 712 krónur.
Mest af laxinum fer til Póllands og Frakklands.
Þá jókst útflutningur á urriða um 30% eða 2,8 milljarða íslenskra króna á fyrsta fjórðungi og skilaði alls 12 milljörðum króna. Í mars var fluttur út urriði að verðmæti 4 milljarðar, sem er aukning um 60% eða 1,6 milljarða. Helstu kaupendur á urriða frá Noregi eru Rússland og Japan.
Norðmenn fluttu út þurrkaðan saltfisk að verðmæti 16,3 milljarðar króna á fyrsta fjórðungi ársins, Það er aukning um 16% eða 2,3 milljarða miðað við sama tímabil í fyrra. Í magni jókst útflutningurinn um 2.500 tonn á tímabilinu. Í marsmánuði skilaði þessi útflutningur 4,5 milljörðum króna, sem er aukning um 37% eða1,2 milljarða. Verðmæti útflutts blautverkaðs saltfisks var á fyrstu þremur mánuðum ársins 7 milljarðar króna, sem er aukning um 34% eða 1,8 milljarða. Mælt í magni jókst útflutningurinn um 2.400 tonn og fór samtals í 13.354 tonn. Í marsmánuði skilaði þessi útflutningur 3,8 milljörðum króna, sem er aukning um 48% eða 1,2 milljarða.
Útflutningur á síld á fyrsta fjórðungi ársins skilaði Norðmönnum 13,6 milljörðum íslenskra króna. Það var samdráttur um 13% eða 2  milljarða. Í mars skilaði síldin 2,7 milljörðum, sem var samdráttur um 19% eða 625 milljónir. Mest af síldinni fer til Rússlands og Þýskalands.
Útflutningur á makríl á fyrstu þremur mánuðum ársins jókst á hinn bóginn um 40%. Hann skilaði alls 12,5 milljörðum og jukust verðmætin um 3,6 milljarða króna. Í marsmánuði skilaði makríll 2 milljörðum króna, sem er 5% aukning miðað við sama mánuð í fyrra. Makrílinn flytja Norðmenn mest til Kína og Hollands.