Ævintýri líkast

109
Deila:

,,Síðustu túrar hafa verið ævintýri líkastir. Sú breyting hefur orðið á Vestfjarðamiðum, í samanburði við mörg síðustu sumur, að það er mjög mikið af stórum og góðum fiski á grunnslóðinni og þar virðist vera nóg æti. Fyrst var fiskurinn í trönusíli en nú er það smásíld sem hann er að éta.”

Þetta segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Akurey AK, í samtali á heimasíðu Brims. Togarinn kom til hafnar í Reykjavík sl. miðvikudag eða hálfum öðrum sólarhring á undan áætlun.



,,Við vorum búnir að fylla og aflinn er 180 til 190 tonn, mest þorskur. Lengst af vorum við bara á grunnslóðinni út af Látrabjargi en skutumst aðeins út í kant fyrir nokkur tog og enduðum svo á að taka karfaskammtinn okkar í Víkurálnum. Það voru nokkur skip á veiðum á grálúðuslóðinni djúpt undan landi en ég held að það hafi bara verið öflugustu togararnir og nokkrir netabátar,” segir Eiríkur en hann segist vart hafa þurft að hugsa um tveggja trolla veiðar í veiðiferðinni.

,,Við notuðum tvö troll samtímis úti í kanti en aflinn á grunnslóðinni var svo mikill að nóg var að toga með einu trolli. Reyndar áttum við fullt í fangi með að veiða ekki of mikið í einu og passa okkur á að veiða réttu tegundina hverju sinni,” segir Eiríkur Jónsson. Hann getur þess reyndar að ákveðin svæði á Vestfjarðamiðum séu ákaflega vandveidd um þessar mundir. Þannig sé mjög mikið af karfa á Halanum og snúið geti reynst að veiða þar þorsk án þess að eiga það á hættu að karfinn þvælist fyrir.

Að sögn Eiríks hefur veður verið gott á miðunum undanfarnar vikur. Engar brælur en smá kaldaskítur af og til. Annars blíðviðri.

Deila: