Áfall að loðnuleit hafi ekki borið  árangur

82
Deila:

Bæjarstjóri Fjarðarbyggðar segir í samtali við ruv.is það áfall að loðnuleit Hafrannsóknastofnunar hafi ekki borið árangur. Sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps segir tekjuáætlanir verða endurskoðaðar í kjölfar leitarinnar.

Mjög lítið fannst af loðnu í loðnuleit Hafrannsóknastofnunar sem lauk í gær. Eitthvað fannst vestan við Kolbeinshrygg og út af Vestfjörðum, en það þó í litlu magni. Leiðangursstjóri stofnunarinnar sagði í fréttum í gær að leiðangurinn gefi ekki miklar væntingar um framhaldið. Þór Steinarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, segir stöðuna alvarlega.

„Það kallar yfir okkur áframhaldandi óvissu hérna og er alvarlegt mál. Þetta hefur áhrif á fjölmörg störf hér og við þurfum í framhaldinu að endurskoða okkar tekjuáætlanir vel og vandlega,“ segir Þór.

Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, tekur í sama streng. Fjarðabyggð hefur orðið fyrir mesta tekjutapinu vegna loðnubrestsins. Um 47 prósent af loðnukvótanum var í sveitarfélaginu.

„Þetta er náttúrulega ákveðið áfall. Loðnan er stór þáttur í okkar tilveru og þjóðarinnar allar. Þetta er næststærsta útflutningsafurðin í fiski með 18 milljarða í heildina þannig að þetta er mikið áfall fyrir fyrirtækin okkar, starfsfólkið og sveitarfélagið allt,“ segir hann.

Næsti leitarleiðangur Hafrannsóknastofnunar verður farinn í byrjun febrúar. Karl vonar að eitthvað finnist af loðnu þá. „Að sjálfsögðu bindur maður vonir við það. Það er ekki alveg útséð um þetta en þetta lítur ekki vel út,“ segir hann.

 

Deila: