Aflagjöld Arctic Fish hækka ört

88
Deila:

Hafnargjöld sem Arctic Fish greiðir af eldisfiski stefna í að verða 59% hærri í ár en þau voru í fyrra. Árið 2020 voru hafnargjöldin greidd til þriggja sveitarfélaga, Vesturbyggðar, Tálknafjarðar og Ísafjarðarbæjar samtals 42,5 m.kr. Á þessu ári stefnir í að þau verði 67,7 mkr.

Þetta kemur fram í svörum Arctic Fish við fyrirspurnum Bæjarins besta.

Í fyrra fóru 93% af hafnargjöldunum til Vesturbyggðar, 5% til Ísafjarðarbæjar og 1% til Tálknafjarðar. Á þessu ári er hlutur Vesturbyggðar nærri 96%.

Langstærstur hluti hafnargjaldanna er aflagjald. Í fyrra var það 38,8 m.kr. af 42,5 m.kr. Hafnargjöld voru 3,6 m.kr. og 0,1 m.kr. voru vörugjöld. Allt aflagjaldið rann til Vesturbyggðar þar sem það greiðist til löndunarhafnarinnar. Eldisfiski úr kvíum á Vestfjörðum var landað til slátrunar á Bíldudal.

Í fyrra kom stærstur hluti eldisfisks Arctic Fish úr kvíum við Eyrarhlíð í Dýrafirði. Aflagjald af þeim fiski nam 31,1 m.kr. Af eldisfiski frá Kvígindisdal í Patreksfirði var greitt 7,7 m.kr. í aflagjald.

Aflagjöldin orðin 54 m.kr.

Fyrstu 10 mánuði ársins 2021 eru aflagjöldin orðin 54 m.kr. Nú er fiskurinn að mestu úr kvíum í Tálknafirði og Patreksfirði. Gert er ráð fyrir að aflagjöldin verði 63 mkr. á árinu og hækki um 62% milli ára.
Frétt og mynd af bb.is

Deila: