Ágætur afli í stuttri veiðiferð

175
Deila:

,,Við komumst ekki úr höfn fyrr en sl, mánudagsmorgun vegna bilunar í túrnum á undan. Það tók sinn tíma að gera við og því er þessi veiðiferð styttri en ella. Við erum nú á heimleið með um 80 til 90 tonn af fiski og ætli við verðum ekki komnir til Reykjavíkur um miðnætti ef allt gengur að óskum.”

Þetta sagði Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK, er rætt var við hann á heimasíðu Brims, er Akurey var þá nýkomin suður fyrir Látrabjarg í gær. Bilunin, sem Eiríkur vísar til, var í rafmótor í togspilinu stjórnborðsmegin en skipið kom til hafnar vegna hennar fyrir réttri viku.

,,Við byrjuðum þennan túr á Eldeyjarbankanum og tókum þar tvö hol svona til að kanna hvort allt væri í lagi með mótorinn. Það reyndist svo vera og við fengum góðan karfaafla og eitthvað af ufsa með,” segir Eiríkur en hann kveður veðrið hafa verið gott á Eldeyjarbanka en þá hafi verið leiðindaveður á Vestfjarðamiðum.

,,Veðrið gekk svo niður og spáin var þokkaleg þannig að við sigldum norður í Víkurál. Við vorum svo þar og í kantinum vestur af og fengum alveg þokkalegan karfaafla. Í lokin vorum við svo á Halanum þar sem við fengum aðallega þorsk og svo ýsu. Það var s.s. enginn sérstakur kraftur í veiðinni en veðrið hefur verið skaplegt. Það var reyndar frekar leiðinlegt veður í gær en í dag hefur það verið ágætt. Það er reyndar að breytast og hér í Breiðafirðinum er vindhraðinn kominn í 23 metra á sekúndu. Veðrið er að versna eins og spáð var og markmiðið er að vera kominn í höfn áður en það versta skellur á,” sagði Eiríkur Jónsson.

 

 

Deila: