-->

Áhrifin víðtæk fyrir þjóðarbúið

Víðs vegar um landið undirbúa fyrirtæki sig fyrir stærstu loðnuvertíð í átján ár. Áhrifin eru víðtæk og fyrir þjóðarbúið er aukinn kvóti ígildi 300 þúsund ferðamanna. Netagerðarmenn sjá fram á mikið annríki. Á ruv. er farið yfir stöðuna.

Eftir mörg mögur ár stefnir í stærstu loðnuvertíð síðan árið 2003. Hóflega áætlað gætu tekjurnar af vertíðinni orðið á bilinu 50 til 70 milljarðar króna. Slík búbót hefur ekki aðeins víðtæk áhrif á útgerðirnar og byggðarlögin þar sem þær starfa, heldur landið eins og það leggur sig.

„Það er álíka og við getum fengið af 300 þúsund ferðamönnum til samanburðar. Helmingur af þeim ferðamönnum sem að við áætlum að komi til landsins í ár,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

Bætir hag allra heimila í landinu

Hvort þessar áætlanir standist, ræðst auðvitað af því hvort það takist að veiða alla loðnuna, hversu hátt verð fæst fyrir hana og hversu hátt hlutfall fer í bræðslu. Því er spáð að aukinn kvóti skili allt að einu prósenti hærri hagvexti en ella.

Auknar útflutningstekjur þýða líka jákvæðari viðskiptajöfnuð. „Það þýðir þá að krónan tekur aftur við sér og styrkingin kannski fyrr á ferðinni heldur en annars væri. Verðbólgan hjaðnar þá fyrr heldur en óttast var og það skilar sér auðvitað bara í bættum hag allra heimila í landinu.“

Mest til Vestmannaeyja

Stóraukinn loðnukvóti hefur áhrif um allt land. Af 900 þúsund tonna kvóta fara 627 þúsund til íslenskra skipa. Þriðjungur þess fer til Vestmannaeyja til skipa Ísfélags Vestmannaeyja og Vinnslustöðvarinnar. Síldarvinnslan á Neskaupstað og tengd félög fá rúmlega 18 prósent, Brim fær svipað hlutfall. Samherji tæplega tíu prósent og það sem eftir stendur dreifist á útgerðir á Norðurlandi og Austurlandi.

Sjóðirnir bólgna út eftir mögur ár

Sveitarfélög, þar sem loðnu er landað og hún unnin, finna vel fyrir auknum umsvifum. Í Fjarðabyggð eru þrjár stórar útgerðir sem sinna loðnuvinnslu. Þar gera menn ráð fyrir að tekjur sveitar- og hafnarsjóðs aukist um 400 milljónir. „Loðnukvóti, aukinn, hefur auðvitað áhrif á allt samfélagið okkar. En fyrir Fjarðabyggð og þessi uppsjávarsveitarfélög þá náttúrulega breytir þetta gríðarlega miklu. Við urðum mjög vör við loðnubrestinn í lækkuðum tekjum og á móti kemur núna að við erum að horfa á auknar tekjur bæði í hafnarsjóði og svo í sveitarsjóði í formi hafnargjalda og útsvars. Og síðan finnur samfélagið okkar allt þetta, önnur fyrirtæki, þetta smitast alveg út í samfélagið,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Verður brjálað að gera alla vertíðina

Stór loðnuvertíð skapar miklar vinnu í fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveg. Í Hampiðjunni í Neskaupstað er vinna löngu hafin við að undirbúa vertíðina enda þurfa veiðarfærin að vera klár. 

„Já ég reikna fastlega með því að það verði alveg brjálað að gera alla vertíðina. Það fer bara eftir veðri,“ segir Hugi Árbjörnsson, netagerðarmeistari í Neskaupstað. Hann býst þó ekki við að vinna sleitulaust allar nætur en það gæti gerst ef skip kemur með rifna nót.  Það gæti hæglega gerst því það þarf að kasta ansi oft til að klára kvótann. „Já ég heyrði nú einhvers staðar um daginn að þetta væru 30 túrar á skip sirka. Það er alveg ágætt. Það þarf svolítið að kasta til að ná því.“

Hampiðjan þarf fleiri hendur til að ráða við álagið. „Við erum búnir að auglýsa eftir mannskap. Okkur finnst þetta bara alveg æðislegt. Menn verða miklu jákvæðari þegar verður brjálað að gera og sjá fram á það að það verði nóg fram undan í rauninni.“

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Stuðla að grænum skrefum í sjávarútvegi

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og breytingar á lögum um stjórn fiskveiða (aflvísir...

thumbnail
hover

Íþyngjandi gjaldtaka hægir á verðmætasköpun í...

„Gjaldtaka í sjókvíaeldi er umfangsmeiri en í flestum öðrum atvinnugreinum hér á landi. Flest fyrirtæki greiða hefðbundin gjöl...

thumbnail
hover

Mikið óveitt af ufsa

Mikið er óveitt af ufsa nú þegar fiskveiðiárinu er að ljúka. Það er svipuð staða og í fyrra. Kvótinn nú er 78.700 tonn, aflin...