Ala loðnu í eldisstöð í fyrsta sinn í heiminum

172
Deila:

Fimmtudaginn 9. desember kl. 12:30 verður málstofa Hafrannsóknastofnunar haldin í fundarsal á 1. hæð að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði.

Agnar Steinarsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun flytur erindið: Eldistilraunir með loðnu / Cultivation of capelin.

Erindið verður flutt á íslensku og opið öllum á YouTube síðu Hafrannsóknastofnunar.

Agnar Steinarsson t.v. og Ragnar Jóhannsson t.h. í tilraunaeldisstöð Hafró að Stað í Grindavík.

Úrdráttur
Í erindinu verður skýrt frá því að í Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík hefur nú í fyrsta sinn á heimsvísu tekist að ala loðnu í eldisstöð. Loðna er lykiltegund í fæðuvistkerfinu í hafinu í kringum Ísland og mikilvægt er að skilja hvaða áhrif loftslagsbreytingar gætu haft á vöxt, fjölgun og útbreiðslu tegundarinnar á næstu áratugum. Vorið 2021 náðu starfsmenn stofnunarinnar, í góðri samvinnu við loðnusjómenn, að frjóvga og klekja út loðnuhrognum og hefja tilraunaeldi á loðnulirfum. Fóðrað var með örsmáu lifandi dýrasvifi og fljótlega kom í ljós að lirfurnar náðu að vaxa og dafna í stöðinni. Rúmum þremur mánuðum síðar var búið að venja tvö þúsund seiði á þurrfóður. Seiðin eru nú að meðaltali 10 sm á lengd og búist er við því að þau muni hrygna í stöðinni næsta sumar, aðeins rúmlega ársgömul. Í erindinu verða sýndar myndir og myndskeið af þroskunarferli seiðanna og skýrt frá niðurstöðum mælinga. Greint verður frá nýjum rannsóknaklefa stöðvarinnar og fyrirhuguðum rannsóknum á áhrifum súrnunar á vöxt og afkomu loðnulirfa. Fjallað verður um mögulegar eldisrannsóknir á loðnu á komandi árum.

Um Agnar
Agnar Steinarsson hefur starfað sem sérfræðingur á Fiskeldissviði Hafrannsóknastofnunar frá árinu 1992. Hann hefur haft umsjón með framkvæmd rannsóknaverkefna sem tengjast eldi eða líffræði ýmissa tegunda, svo sem þorsks, lax, bleikju, hrognkelsa, sandhverfu, sæeyrna, ígulkera o.fl. Á undanförnum árum hefur áherslan í rannsóknum að mestu leyti snúið að eldislaxi, svo sem rannsóknum á ófrjóum laxi og framleiðslu á hrognkelsum fyrir laxeldi á Íslandi og Færeyjum. Agnar er með B. Sc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og Cand. Scient í sjávarlíffræði frá Háskólanum í Osló.

Deila: