Algjör bylting

Deila:

Fyrirtækið e Tactica hefur hannað og sett upp tölvuforrit fyrir landtengingar smábáta við rafmagn. Forritið hefur verið sett upp í Sandgerðishöfn og reynist mjög vel. Þá er það einnig í notkun í Hafnarfirði og Faxaflóahöfnum í Reykjavík.

Þegar smábátur kemur í höfn í Sandgerði finnur skipstjórinn sér tengil í sértilgerðum kössum, sem eru allir númeraðir. Þá er hann búinn að skrá sig áður hjá höfninni í tölukerfið og þarf aðeins að gera það einu sinni. Þegar hann kemur að bryggju slær hann inn skipsnúmerið sitt og númerið á tenglinum og þá tengist hann sjálfkrafa. Sama er svo þegar hann fer á sjó aftur. Þá slær hann inn tilheyrandi númer til að aftengjast.

„Um hver mánaðamót tökum við stöðuna á notkuninni og sjáum hvað hver og einn hefur notað af rafmagni og gefum út reikning í samræmi við það.  Þetta er alveg sjálfvirkt, við þurfum eiginlega ekkert að líta á þetta.

Við tókum þetta kerfi upp í mars og það hefur reynst algjör bylting fyrir okkur til að halda utanum rafmagnsnotkun bátanna. Áður var mun erfiðara að halda utan notkunina og því erum við mjög ánægðir með þetta kerfi. Stærri bátarnir eru ekki komnir inn í þetta kerfi og þeir tengja sig venjulega sjálfir og þá þarf að fylgjast með mælunum til að sjá notkunina,“ segir Rúnar Árnason, hafnarstjóri í Sandgerði.

Deila: