Allir með fullfermi

89
Deila:

Allir þrír ísfisktogarar Brims komu að landi með fullfermi af fiski í vikunni. Alls voru þetta tæplega 600 tonn af fiski og því er ljóst að hráefnisskortur mun ekki hamla vinnslunni í fiskiðjuverinu á Norðurgarði á næstunni.

Að sögn Birkis Hrannars Hjálmarssonar, útgerðarstjóra togaranna, reið Viðey RE á vaðið og kom til hafnar í Reykjavík sl. sunnudag með alls 603 kör af fiski eða tæplega 200 tonn. Skipstjóri í veiðiferðinni var Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli). Morguninn eftir kom Helga María AK til hafnar með 655 kör eða svipað aflamagn upp úr sjó og Viðey. Skipstjóri var Heimir Guðbjörnsson. Loks kom Akurey AK til Reykjavíkur á miðvikudag með 603 kör af fiski eða tæplega 200 tonn. Allt voru þetta fullfermi.

,,Það hefur verið mjög góður afli síðustu vikur og ætli það sé ekki kominn mánuður með sæmilegu veðri og góðum afla,” segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Akurey í samtali á heimasíðu Brims.

Að sögn Eiríks hafa togararnir haldið sig syðra og svo góður gangur hefur verið í veiðunum að skipin hafa yfirleitt náð að fylla á fjórum veiðidögum í stað þeirra fimm sem áætlaðir eru.

,,Það veiðast flestar helstu fisktegundir jöfnum höndum. Við vorum t.d. með 50 tonn af þorski í þessum túr og 70 tonn í túrnum á undan. Karfi veiðist jafnt og þétt og það hafa komið mjög góð ufsaskot nokkuð reglulega. T.d. var mjög góð ufsaveiði á Tánni í nokkra daga um daginn en við vorum ekki þar. Þá veiddist stórufsi í nokkra daga á Eldeyjarbankanum og þar var einnig mjög góð þorskveiði sem og í Jökuldjúpinu,” segir Eiríkur Jónsson.

Deila: