-->

Allt svo lifandi nema fiskur í kassa

Maður vikunnar að þessu sinni er Patreksfirðingur, stundaði fiskvinnslu og sjómennsku á Suðurnesjum, en starfar nú við laxeldi á Djúpavogi. 13 ára var hann farinn að slægja fisk og salta í stæður í Garðinum.

Nafn:

Erlendur Guðmar Gíslason.

Hvaðan ertu?

Fæddur á Patreksfirði 1973 átti þar góða æsku þar og eyddi unglingsárunum á Suðurnesjum og Reykjavík í skóla og fór aftur heim 1994.

Fjölskylduhagir?

Í sambúð með Jenný Kristínu Sæmundsdóttur, saman eigum við eina dóttur 13 ára og ég á aðra 24 ára frá fyrra sambandi.

Hvar starfar þú núna?

Framleiðslustjóri sjóeldis hjá Fiskeldi Austfjarða á Djúpavogi.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Pabbi, Gísli Kristinsson var skipstjóri alla sína starfsævi og var tenging mín við sjávarútveg í æsku. Ég hef verið um 13 ára að slægja fisk af Sigurði Bjarnasyni GK 100 og salta í stæður hjá Baldvini Njálssyni í Garði nú Nesfiskur. Síðan lá leiðin í skóla og sjó á sumrin á Unu í Garði GK og á handfærum með Óskari Gísla en ég sneri mér að sjómennsku 1993 til 2011 lengst af á Þorsteini BA, síðan kynntist ég laxeldi í sjó.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Án efa fjölbreytnin, það er í mörg horn að líta, landsbyggðin og tengingin við náttúruna. Allt svo lifandi nema fiskur í kassa.

En það erfiðasta?

Ég var búinn að gleyma því en takk fyrir að minna mig á það. Bæta dragnót á bryggjunni á Patreksfirði í sól og blíðu eftir langa daga á sjónum á undan.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í störfum þínum?

Ég veit ekki, flest sem er skrítið í fyrstu á sér yfirleitt eðlilegar skýringar þegar hugsað er út í atburðinn og „hissið“ minnkar. Draga 32.000 króka og fá afla í einn togarakassa er eftirminnilegt.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Án efa Óskar Hörður Gíslason mágur minn, og Þorsteinn Óskarsson í Grindavík, blessuð sé minning Þorsteins.


Hver eru áhugamál þín?

Veiðitengd, stangveiði og skotveiði, skaut mitt fyrsta hreindýr í sumar. Bíltúrar út í buskann.


Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Ferfætlingar og fiskur, steiktur fiskur og kótilettur í raspi heillar, en ef gera á vel við sig þá er það lax eða lambasteikur á grillið, annars allt sem frúin eldar nema nætursaltaður þorskur. Af hverju að borða hann saltaðan þegar hægt er að fá hann ferskan?


Hvert færir þú í draumfríið?

Ekki langt, mér liður best á Íslandi og yfirleitt feginn að komast heim úr ferðalagi. Draumafrí væri án rafmagns og nútíma þæginda, lífið verður afslappað við þær aðstæður og ómetanlegra.

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Mast heimilar eldi á sæeyrum í...

Í samræmi við reglugerð nr. 1133/2021 hefur Matvælastofnun ákveðið að skrá Sæbýli rekstur ehf. með fiskeldi í Grindavík. Um...

thumbnail
hover

Gat á kví við Vattarnes –...

Matvælastofnun barst tilkynning frá Löxum Fiskeldi fimmtudaginn 20. janúar um gat á nótarpoka einnar sjókvíar Laxa við Vattarnes í...

thumbnail
hover

„Norðlendingur“ fyrir austan. Enginn frá borði...

Kaldbakur EA 1 – togari Útgerðarfélags Akureyringa – landaði 110 tonnum á Akureyri í gærmorgun, uppistaða aflans var þo...