Almennur verkamaður á gólfi með MSc. gráðu

371
Deila:

Maður vikunnar á Auðlindinni nú er Eyfirðingur. Hann fór sinn fyrsta túr á sjó 1997 á Harðbak og fjármagnaði síðan skólagöngu sína sjómennsku. Hann kláraði meistaranám í auðlindafræði frá Háskólanum á Akureyri og er nú verkstjóri í fiskvinnslu Brims á Norðurgarði. Íslensk kjötsúpa er í uppáhaldi hjá honum.

Nafn:

Halldór Pétur Ásbjörnsson.

Hvaðan ertu?

Ég er að norðan og kalla mig alltaf Eyfirðing. Ólst upp á bóndabæ, Skjaldarvík, rétt fyrir utan Akureyri. Auðveldast að losna við slagsmál við Dalvíkingana og Húsvíkingana á böllunum forðum daga með því að segjast vera úr sveitinni í Eyjafirði.

Fjölskylduhagir?

Er rétt byrjaður í sambandi við unga Reykjavíkurmær. Á svo 7 ára strák úr fyrra sambandi.

Hvar starfar þú núna?

Er verkstjóri hjá Brim fiskvinnslu á Norðurgarði og formaður öryggisnefndar. Eftir að hafa klárað meistaranám í Auðlindafræði frá Háskólanum á Akureyri 2011 flutti ég suður. Fékk vinnu hjá HB Granda stuttu seinna en þá sem almennur verkamaður á gólfi með MSc. gráðu. Vann mig upp frá karfaflökunarvélinni upp í aðstoðar verkstjórastöðu á einu ári og í verkstjórastöðu eftir 3 ár.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég fór minn fyrsta túr á sjó á Harðbak árið 1997. Eftir það var ekki aftur snúið. Var á sjó flest sumur eftir það til að borga skólann. Meðan aðrir djömmuðu á sumrin þá var ég á sjó  og tók alla afleysingatúra sem buðust, flesta á skipum Samherja.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Fjölbreytileikinn. Í vinnslunni þarf allt að gerast hratt og fæstir dagar eru eins. Mjög gaman að fylgjast með þeirri þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár og gaman að taka þátt í þeirri þróun. 

En það erfiðasta?

Mannlegi þátturinn og pólitíkin. Eins og við höldum að sjávarútvegurinn sé stór þá er hann samt mjög lítill og getur verið erfitt að komast áfram innan geirans nema vera vel tengdur.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Þegar við fengum 2 kör (600 kg) af svo smáum ufsa að flökunarvélin át fiskinn, þ.e. það sem fór inn kom ekki út. Ég var eini stjórnandinn þennan daginn og vissi ekkert hvað ég átti að gera við svo smáan fisk. Svo ég ákvað að prufa að setja hann í karfaflökunarvélina (sem er í raun breytt síldarflökunarvél). Það gekk svona glimrandi vel. Náðum fínum blokkarbitum úr ufsanum.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Gissur Smárason. Dásamlegur persónuleiki. Var áður í neyslu og hálf tannlaus 30 ára. Einn af þeim sem þú vildir ekki hitta í dimmu sundi. Ofvirkur með athyglisbrest en ljóngáfaður og hörkuduglegur og með hjarta úr gulli. Vann sig upp í fína stöðu og var einnig trúnaðarmaður fyrir Eflingu. Vann mikið með honum. Hann sýndi mér og kenndi hvernig lífið getur farið með mann og hvað lífið getur verið gott fái fólk tækifæri til að sanna sig.

Hver eru áhugamál þín?

Kajakar, stangveiði og hestamennska. 

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Góð kjötsúpa. Ekki spurning.

Hvert færir þú í draumfríið?

Fer norður til Akureyrar. Frábært að njóta Eyjafjarðar og nágrannabæja á sumrin.

Á myndinni er Halldór Pétur Ásbjörnsson til hægri ásamt Valgeiri Einari, eldri bróður sínum sem er Baadermaður hjá Brimi.

 

Deila: