-->

Alveg steindautt helvíti

Kjartan Kjartansson, fyrrum fangavörður  gerir út smábátinn Bjargfugl RE 55 á grásleppu. Hann sat í verbúðinni sinni úti á Granda að skera utan af netum, þegar kvotinn.is leit við hjá honum. „Ég er mest með grásleppunetin við Gróttuna, þar sem styst er að fara. Það var steindautt alveg þetta helvíti og vertíðin ekki nema 30 dagar. Versta vertíðin sem ég hef upplifað. Verðið var í ofanálag dottið niður um helming frá því sem var í fyrra. Það er alveg makalaust hvernig þetta er. Það var lítið að hafa,“ sagði Kjartan.

Nú slægja menn ekki lengur fiskinn úti á sjó, hirða hrognin og henda fiskinum. „Þetta kemur bara heilt í land og er skorið þar. Hrognin fara í vinnslu hér heima en fiskurinn seldur til Japans eða Kína eða eitthvert þangað. Ég legg upp hjá honum Vigni mínum á Akranesi. Hann selur þetta allt og sýður mikið niður af hrognunum fyrir smásölu. Hann er búinn að vera í þessu í mörg ár og er mikill heiðursmaður. Hann hefur verið góður við okkur grásleppukarlana.“
Kjartan er 81 árs gamall en hann byrjaði á sjónum níu ára á Breiðafirði. „Það er því hægt að segja með sanni að ég hafi stundað sjóinn í meira en 70 ár. Við Breiðafjörðinn veiddi maður fisk, ref og sel. Ég held ég ljúgi því ekki að það hafi verið selur í matinn minnsta kosti einu sinni eða tvisvar í viku í matinn.  Herramanns matur selurinn.  Kjartan er frá Fossá á Hjarðarnesi, sem er beint á móti Brjánslæk en þar var mikið bú og róið til fiskjar. Breiðafjörðurinn er mikil matarkista en maður þurfti nú samt að hafa mikið fyrir því að sækja björg í bú,“ sagði Kjartan. Hann var fangavörður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í tæp 40 ár, en stundaði alltaf sjóinn með vinnu og í fríum þegar tækifæri gafst.
Á myndinni sker Kjartan Kjartansson utan af netunum i blíðunni úti á Granda. Ljósmynd Hjörtur Gíslason