„Árangurinn minni en enginn“

197
Deila:

Arthur Bogason sendi Hafrannsóknastofnun og stjórnmálamönnum tóninn í setningarræðu sinni á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda. „Grafarþögnin sem pólitíkin kýs að ríki um hið fullkomna árangurleysi „uppbyggingarprógramms“ Hafrannsóknastofnunar er kannski einn undarlegasti flöturinn á umræðunni um sjávarútveginn. Mér er algerlega óskiljanlegt að fulltrúar þjóðarinnar á löggjafarsamkomunni skuli ekki fyrir löngu vera búnir að kalla eftir því að fá þá staðreynd útskýrða hvers vegna áratuga tilraunastarfsemi Hafrannsóknastofnunar með togararall og reikniforrit skuli árangurinn í raun vera minni en enginn,“ sagði Arthur og hélt áfram:

Arthur Bogason, var endurkjörinn formaður Landssambands smábátaeigenda.

„Það er þyngra en tárum taki að rifja upp tölurnar. Í febrúar 1984 var gefin út fyrsta reglugerðin um leyfilegan heildarafla.

Árið 1984 var gefinn ú leyfilegur heildarafli í þorski upp á 220 þúsund.

Fyrir yfirstandandi fiskveiðiár er talan 220.417 tonn.

Árið 1984 var gefinn út leyfilegur heildarafli í ýsu upp á 60 þúsund tonn.

Fyrir yfirstandandi fiskveiðiár er sú tala rúm 41 þúsund tonn, eða rúmlega 30% lægri.

Árið 1984 var gefinn út leyfilegur heildarafli í ufsa upp á 70.000 tonn.

Bravó! Nú var gefinn út ufsakvóti upp á 77.381 tonn , rúmlega 10% aukning!

Árið 1984 var gefinn út leyfilegur heildarafli í steinbít upp á 15 þúsund tonn.

Nú er þessi tala hrunin niður í rúm 8.300 tonn, 45% lækkun.

Árið 1984 var gefinn út leyfilegur heildarafli í karfa upp á 110 þúsund tonn.

Nú: 28.554 tonn – 26% af tölunni 1984.

Árið 1984 var gefinn út leyfilegur heildarafli á grálúðu upp á 30 þúsund tonn.

Nú: Rúm 15 þúsund tonn – 50% samdráttur.

Og lestina rekur skarkolinn – en fyrsta reglugerðin innihélt aðeins 7 fisktegundir.

1984 lagði Hafró til 17 þúsund tonna veiði, en nú 7.800 tonn. Reyndar 7.805 tonn, því reiknimódelin eru svo hárnákvæm.

Hvernig má það vera að ekki einn einasti stjórnmálamaður lét það hvarfla að sér að nefna þessar staðreyndir í kosningabaráttunni? Hvernig má það vera að ekki einn einasti fjölmiðill tekur þessar staðreyndir til umfjöllunar? Í Svörtu skýrslunni svokölluðu, sem Hafró gaf út 1972 var ekkert verið að skafa af hlutunum.

Orðrétt upp úr skýrslunni:

„Meðalafli botnlægra tegunda á Íslandsmiðum hefur á undanförnum árum numið um 700 þúsund tonnum. Talið er, að með hagkvæmri nýtingu mætti auka aflann í um 850 þúsund tonn…“.

Og ögn síðar segir:

„Talið er að hámarksafrakstur þorskstofnsins sé nær 500 þúsund tonn á ári“.

Miðað við viðbrögð stjórnvalda og fjölmiðla er næst lagi að líta svo á að þessir aðilar telji eðlilegt að láta þetta yfir sig ganga. Það ætla ég sem hér stendur ekki að gera. Ég mun benda á þessar staðreyndir svo lengi sem ég tel þess þörf og hef til þess þrek.“
Arthur var endurkjörinn formaður sambandsins á aðalfundinum.

Deila: