Arnar HU fór hringinn

Deila:

Arnar HU-1, frystitogari FISK Seafood, er nú að landa afla fyrstu veiðferðar ársins á Sauðárkróki. Skipið kom til hafnar í gær en Arnar fór á veiðar 2. janúar. Guðjón Guðjónsson, skipstjóri, segir að í túrnum hafi verið farið hringinn í kringum landið. Veiðar og vinnsla hafi gengið ágætlega en erfiðlega hafi gengið að finna ufsa.

„Veiðiferðin gaf okkur um 15 þúsund kassa eða um 496 tonn upp úr sjó. Uppistaða aflans er 217 tonn af ýsu, 96 tonn af þorski og 89 tonn af gullkarfa. Minna í öðrum tegundum,“ er haft eftir Guðjóni á heimasíðu FISK Seafood en aflaverðmæti í túrnum námu um 230 milljónum króna.
„Við höfum verið víða á veiðum og fórum t.d. hringinn í kringum landið en vorum mest á Vestfjarðamiðum. Veðrið hefur verið á alla vegu,
enda janúar og margar lægðir verið.“

Deila: