Átak til fækkunar slysa í fiskvinnslu

Slysatíðni í fiskvinnslu hefur hækkað á undanförnum árum, þrátt fyrir umtalsverða fækkun starfsfólks. Fjöldi tilkynntra slysa á hverja þúsund starfsmenn hefur aukist úr tæplega 100 árið1991 í um 350 á síðasta ári. Á sama tíma hefur starfsfólki í fiskvinnslu fækkað um helming, farið úr um 8.000 í 4.000 manns.

Flest slys í fiskvinnslu verða við framleiðslulínur, á ferð um vinnusvæði og við viðhaldsvinnu. Algengustu orsakavaldar eru vinnusvæði, iðnaðarvélar, handverkfæri og vinnuvélar. Algengustu orsakir áverka eru hvass, beittur hlutur, högg og að klemmast/festast í vél. Slysum meðal ungra starfsmanna hefur fjölgað.
Vegna þessa, meðal annars hefur Vinnueftirlitið ákveðið að hleypa af stokkunum átaki í þessum málum í sumar og haust. „Við getum allavega sagt að tíðni slysa í fiskvinnslu er ekki að lækka eins og við vildum sjá,“ segir Helgi Haraldsson, deildarstjóri tæknideildar hjá vinnueftirlitinu í samtali við kvotinn.is, en hann er verkefnisstjóri átaksins. „Starfsmönnum er að fækka en við sjáum samt ekki fækkun slysa. Það er frekar að þeim fjölgi. Þetta tengist meðal annars vélum og tækjum. Upphafið af þessu átaki var það að það urðu slys sem komu inn á borð tæknideildar og í framhaldi af því fórum við að kanna hvernig þróunin hefði verið í slysum í atvinnugreininni. Þetta tvennt varð til þess að ákveðið var að fara í þetta átak, sem fram fer fram á landsvísu og verður keyrt á þessu ári. Erindi hafa verið send til ríflega 200 skráðra starfandi fiskvinnslufyrirtækja. Búið er að funda með fulltrúum Samtaka fiskvinnslunnar og Starfsgreinasambands Íslands. Allir virðast vera jákvæðir gagnvart því að taka höndum saman um reyna að fækka þessum slysum,“ segir Helgi.
Og hann heldur áfram: „Við teljum að hægt sé að fækka slysum og reyndar megi koma í veg fyrir flest slys. Þetta snýst mikið um að fyrirtækin bæti sín öryggismál og innra starf þeirra sé virkt, þau séu með viðurkenndan öryggisbúnað og öryggisverði og vinni áhættumat. Það er á þessum heimavelli sem átakið á að vinnast og verður að vinnast. Þetta getur aldrei orðið þannig að „stóri bróðir“ leysi þessi mál fyrir fyrirtækin. Stjórnendur og starfsmenn verða að vinna að því í sameiningu að fækka slysum og helst koma í veg fyrir þau. Það er fyrst og fremst þeirra eigin hagur, hagur einstaklinganna, fyrirtækjanna og svo er þetta einfaldlega þjóðarhagur líka. Auðvitað fylgir vinnuslysum heilmikill kostnaður fyrir utan hina mannlegu þætti,“ segir Helgi
Stefnt er að því að átakið standi yfir frá júní til nóvember á yfirstandandi ári og að flest fyrirtæki í fiskvinnslu verði heimsótt. Fundað verður með yfirstjórnendum og öryggisnefnd eða öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum, þar sem verður rætt um vinnuverndarstarf fyrirtækisins, áhættumat þess auk þess sem upplýsingaefni verður afhent. Vinnustaðurinn verður svo skoðaður með tilliti til öryggismála. Ef þörf reynist verða gefin fyrirmæli um úrbætur með tímafresti. Ef aðstæður á vinnustaðnum krefjast þess verður notkun búnaðar, eða vinna bönnuð.
Á haustmánuðum verður boðið upp á námskeið tengd átakinu. Um er að ræða almenn vinnuverndarnámskeið sniðin að að aðstæðum í fiskvinnslu og námskeið um kælikerfi.
Að átakinu loknu verður gefin út skýrsla með heildarniðurstöðum og mun hún verða aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar.