Aukið brottkast botnfiska

83
Deila:

Brottkasti botnfiska jókst árin 2016‐2018 samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar, en niðurstöður þeirra hafa nú verið birtar. Mælingar á brottkasti 2016 og 2018 beindust að þorskanetum auk þorsk og ýsu í línuveiðum, en árið 2017 að þorski og ýsu í línu‐ og botnvörpuveiðum. Brottkast á bæði þorski og ýsu jókst í botnvörpu, og var um töluverða aukningu að ræða í báðum tegundum. Brottkast á þorski í netum var svipað og undanfarin ár, en þó var metið brottkast 2018 hærra en langtímameðaltal. Brottkast var lægra í línuveiðum í báðum tegundum, en þó mátti sjá aukningu í ýsu árið 2017, líklega vegna stórs árgangs smáýsu það ár.

Reiknað brottkast þorsks í línuveiðum árið 2016 var um 221 þús. fiskar eða 113 tonn, en þær tölur eru um 1% af heildarfjölda landaðs afla ársins, en aðeins um 0.1% af heildarþyngd landaðs afla. Brottkast var hlutfallslega lægra í netaveiðinni, þar sem reiknað brottkast var um 0.7% af heildarfjölda og 0,1% af heildarþyngd landaðs afla. Í heild var því reiknað brottkast þorsks árið 2016 í þessum tveimur veiðarfærum 1% af heildarfjölda og 0,12% af heildarþyngd landaðs afla.

Reiknað brottkast ýsu í línuveiðum árið 2016 var um 73 þús. fiskar eða 28 tonn sem er um 1.1% af heildarfjölda eða 0,2% af heildarþyngd landaðs afla ársins. Brottkast ýsu var ekki metið í öðrum veiðarfærum þetta árið.

Brottkast í línu‐ og botnvörpuveiðum 2017

Reiknað brottkast þorsks í línuveiðum árið 2017 jókst frá árinu áður, og var um 608 þús. fiskar eða 384 tonn, sem samsvarar 2,9% af heildarfjölda landaðs afla ársins eða um 0.5% af heildarþyngd. Reiknað brottkast þorsks í botnvörpuveiðum jókst að sama skapi töluvert frá síðasta mati, og var um 3353 þús. fiskar eða 5274 tonn, sem gerir um 12,2% af heildarfjölda eða 3,9% af heildarþyngd landaðs afla í botnvörpu. Reiknað brottkast fyrir árið 2017 í þessum tveimur veiðarfærum var því nokkuð hátt, eða 8,2 % af heildarfjölda landaðs afla, og 2,6% af heildarþyngd landaðs afla.

Brottkast úr þessum tveimur veiðarfærum var því meira en þegar þessi veiðarfæri voru síðast skoðuð árið 2015, en þá var metið brottkast 7,3% af heildarfjölda eða 2,1% af heildarþyngd landaðs afla. Reiknað brottkast ýsu í línuveiðum var 278 þús. fiskar eða 129 tonn sem gerir 3.77% af heildarfjölda landaðs afla ársins á línu og er það hæsta frá 2006. Reiknað brottkast í botnvörpu var meira, eða um 324 þús. fiskar og 198 tonn. Reiknað heildarbrottkast ársins í þessum veiðarfærum var því um 3,83% af heildarfjölda og 0,99% af heildarþyngd landaðs afla.

Brottkast í línu og netaveiðum 2018

Reiknað brottkast þorsks í línuveiðum árið 2018 var um 357 þús. fiskar eða 343 tonn, en þær tölur eru um 1,8% af heildarfjölda landaðs afla ársins, en um 0,4% af heildarþyngd landaðs afla. Brottkast var hlutfallslega hærra í netaveiðinni, þar sem reiknað brottkast var 93 þús. fiskar eða 207 tonn, sem gerir um 4,4% af heildarfjölda og 1,1% af heildarþyngd landaðs afla. Í heild var því reiknað brottkast þorsks árið 2018 í þessum tveimur veiðarfærum 2% af heildarfjölda og 0,5% af heildarþyngd landaðs afla. Reiknað brottkast ýsu í línuveiðum árið 2018 var um 27 þús. fiskar eða 11 tonn sem er um 0,3% af heildarfjölda eða 0,1% af heildarþyngd landaðs afla ársins. Brottkast ýsu var ekki metið í öðrum veiðarfærum þetta árið.

niðurstöður mælinga

Deila: